miðvikudagur, júlí 26, 2006

Munaðarlaus...

Stelpurnar fóru í gær til útlandsins og verða í næstum fjórar vikur. Það var ægilega erfitt að keyra burt frá flugvellinum, en eftir að ég heyrði frá þeim nýlentum og allt hafði gengið súper vel, er þetta bara alltílæ held ég. Ennþá :)

Svo er bara um að gera að halda sér bissí næstu vikurnar. Ætla að byrja á Veiðivötnum og sjá svo til. Er að spá í að fá mér svona til að spjalla við í bílnum á leiðinni.

Hér eru svo nokkrar skemmtilegar túristamyndir fyrir ykkur til að skemmta ykkur yfir á meðan.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Hvað var ég nú að koma mér í?

Jæja, þá er geðsjúklingurinn ég búin að skrá mig í hálf-maraþon 19. ágúst. Byrjuð að æfa á fullu og veitir víst ekki af, sér í lagi þar sem sumarfríið mitt kemur þarna inní og verður líklega ekki hlaupið mikið þar.

Össur ætlar að borga 1000 kall á hvern kílómetra sem starfsmenn hlaupa, og rennur ágóðinn til Íþróttafélags fatlaðra.

Ég hef reyndar aldrei tekið þátt í svona löngu hlaupi áður, -bara 10 km. En maður er auðvitað alltaf að hlaupa svo þetta hlýtur að hafast.

Aðal markmiðið verður allavega að ná að klára þetta. Ef ég næ því svo undir tveimur tímum þá verð ég mjög sátt.

sunnudagur, júlí 09, 2006

Klikkhausar

Við stelpurnar (3/4 af okkur þ.e.) ákváðum að skella okkur í Þakgil um helgina. Er búin að heyra svo margt af þessum stað sem ég vildi sannreyna. Við vorum ekki sviknar, það er ofsalega fallegt þarna og leiðin af Þjóðvegi 1 þangað inneftir (um 14 km) er ævintýralega falleg. Fyrir þá sem ekki vita þá liggur þessi afleggjari rétt austan við Vík og er beygt til vinstri út af veginum. Ef beygt er til hægri og ekið í 14 km. þá endið þið úti í sjó. (Þetta er mjög mikilvæg vitneskja fyrir mig þar sem ég á erfitt með að þekkja í sundur hægri og vinstri :)

Við komum okkur vel fyrir með litla kúlutjaldið okkar, sem er nú bara svona svefntjald og rétt rúmar okkur þrjár. Svo var ég með lítið sóltjald sem ég setti upp við hliðina á tjaldinu og þar vorum við með borðið okkar, prímusinn og svoleiðis dótarí. Voða kósí og fínt hjá okkur. Við sváfum þarna um nóttina og á laugardeginum fórum við í bíltúr. Fórum í sund á Vík og þræddum svo alla vegaspotta sem við fundum þarna í nágrenninu.

Eftir frábæran dag komum við aftur inn í Þakgil, en þegar við komum að tjaldinu var búið að taka niður sóltjaldið og leggja það pent við hliðina á tjaldinu okkar. Og ofaní okkur var búið að tjalda einhverjum 4-5 hústjöldum og tjaldvögnum eða fellihýsum eða hvað þetta heitir alltsaman. Enginn var sjáanlegur í þessu nýuppsprottna tjaldþorpi svo við stelpurnar fórum bara að grilla kvöldmat og slappa af eftir daginn.

Eftir dálítinn tíma birtist fólk í tjaldbúðunum og kemur ein konan röltandi yfir til mín.

Kona: "Heyrðu, ég tók niður sóltjaldið hjá þér áðan"
Ég: "Já, ég tók eftir því"
Kona: "Já sko, það var ekki nóg pláss fyrir okkur og þú varst ekki hérna..."
Ég: "Það er fullt af lausum tjaldstæðum hérna í kring"
Kona: "Já, en við vildum vera hérna hjá okkar fólki"
Ég: "Já, það hefði nú verið allt í lagi að spyrja fyrst"
Kona: "Já, en það var enginn hérna!"

Þá benti ég henni á þá staðreynd að ég væri að borga jafn mikið fyrir tjaldstæðið undir litla kúlutjaldið mitt og hún fyrir hústjaldið sitt. Ég væri hérna í sumarfríi rétt eins og hún og hún hefði alveg getað beðið eftir mér. Hún tautaði einhverja afsökun og ég sagði að mér finndist þetta bara yfirgengileg frekja. Með það labbaði hún tautandi í burtu. Hún hafði greinilega átt von á því að ég segði: "Jájá, ekkert mál! Viltu ekki að ég færi tjaldið mitt líka hérna út í lækinn svo það sé nóg pláss fyrir ykkur?"

Ég tek það fram að ég var pollróleg þegar þessi samskipti okkar áttu sér stað. En við þetta máttum við una, það var búið að taka af okkur þessa litlu aðstöðu sem við höfðum komið okkur upp og við máttum matbúa og nærast í skjóli við bílinn.

Segið mér, hvað er í gangi í hausnum á svona fólki?!

þriðjudagur, júlí 04, 2006


Sumrinu hefur verið aflýst

Veðurguðirnir hafa komist að samkomulagi um það að sumrinu á Íslandi skuli aflýst þetta árið. Þetta ku stafa af ónógri þáttöku sólargeisla og stiga sem kennd eru við hita og oft mæld á celsius kvarða.

Ég hef aðeins eitt um þetta að segja:

"Better luck next year!"