föstudagur, desember 21, 2007

*Andvarp*

Mér finnst ég bara verði að blogga þó ég hafi ekkert sérstakt að segja. Síðasta prófið var í dag, eftir viku sem einkenndist af veikindum (minna og allra dætranna) og lack of motivation. Er samt nokkuð viss um að ég náði öllu svo nú fer ég reynslunni ríkari inn í næstu önn sem byrjar um miðjan janúar.

Skrýtin tilfinning sem fyllti magann á leiðinni heim eftir prófið. (Mig langar að segja tómleiki, en getur tómleiki "fyllt" magann? ) Allt í einu vantaði mig einhvern sem biði heima og ég gæti hoppað upp um hálsinn á til að fagna þessu öllusaman.

Skrýtið.

Og allt í einu verður maður eitthvað væminn (og ekki einu sinni byrjuð á rauðvíninu sem ég var búin að lofa mér)

þriðjudagur, desember 18, 2007

When do you plan to kill yourself?

Eftirfarandi spurningar eru úr "The Feeling Good Handbook" og eiga að gefa vísbendingu um hvort sá sem svarar sé í áhættuhóp fyrir að stytta sér aldur.

1. Have you been feeling sad or unhappy?
2. Do you ever feel hopeless?
3. Do you ever have thoughts of death or think that you would be better off dead?
4. Do you have any urge to kill yourself?
5. Do you feel you can resist these impulses or do they sometimes tempt you?
6. Do you have any actual plan to kill yourself?
7. When do you plan to kill yourself?
8. Is there anything that would hold you back suck as your family or religious convictions?
9. Have you ever made a suicide attempt in the past?
10. Would you be willing to seek help or talk to someone if you ever felt desperate?

If a person answers "yes" to any number of these questions, the threat of suicide may be imminent.

Ég meina... hvers vegna að gera einfalt mál flókið?

föstudagur, desember 14, 2007


Tvífarar

Þessir tveir fréttamenn eiga fleira sameiginlegt en starfið.

Til dæmis þetta einlæga bros.

föstudagur, nóvember 23, 2007

Í dag eru...

17 dagar í fyrsta prófið

28 dagar í síðasta prófið

31 dagur til jóla

38 dagar eftir af árinu 2007

... er eitthvað skrýtið að maður sé *smá* kvíðinn? :oI

(Langar ekki einhvern að bjóða mér í æðislegt áramótapartý? :)

laugardagur, nóvember 10, 2007

Vísindaferð

Ég fór í mína fyrstu vísindaferð í gær! Missti af einni í haust... vissi ekki að það væri takmarkaður fjöldi og svona líka umsetið að listinn var fullur samdægurs.

Nema hvað... ferðinni var í þetta sinn heitið á Hrafnistu (já, elliheimilið). Þar var okkur laumað inn til að við trufluðum nú örugglega ekki heimilisfólkið, upp á þriðju hæð og inn í sal þar sem okkar biðu veitingar í föstu og fljótandi formi og af ýmsum styrkleikum. Góður fyrirlestur frá tveimur starfandi félagsráðgjöfum við stofnunina og svo létt spjall og gleðskapur á eftir.

Það fyndnasta við þessa ferð var eiginlega það, að í slideshow-inu sem við fengum voru meðal annars myndir af gamla fólkinu að dansa og skemmta sér á bjórkvöldi í þessum sama sal. En þarna urðum við að læðast með veggjum til að þau yrðu okkar örugglega ekki vör.

Ætli þeim hefði ekki verið sama þó við hefðum aðeins heilsað upp á þau í leiðinni? :)

mánudagur, nóvember 05, 2007

unravel

while you are away
my heart comes undone
slowly unravels
in a ball of yarn
the devil collects it
with a grin
our love
in a ball of yarn

he'll never return it

so when you come back
we'll have to make new love

sunnudagur, október 28, 2007

Gleðilegan vetur

Mér fannst fyrsti vetrardagur reyndar tekinn full hátíðlega, þó snjórinn hafi vissulega lífgað upp á skammdegið. Í 'myndir' hérna til hægri má finna nokkrar frá helginni.

föstudagur, október 19, 2007

Dásamleg frétt

(Til að fyrirbyggja allan misskilning skal tekið fram að þetta var ekki ég)

"Lögregla var kölluð að fjölbýlishúsi í Kópavogi upp úr miðnætti, þar sem kona var út á svölum og öskraði. Hún tjáði lögreglumönnunum að hún birgði svo mikla reiði inni í sér að hún yrði að öskra, hverju sem tautaði og raulaði.

Lögreglumennirnir höfðu skilning á því og buðu henni í bíltúr út fyrir bæinn til að klára málilð, sem hún þáði. Eftir að hafa öskrað nokkra stund uppi í Heiðmörk, var hún tilbúin til að fara heim að sofa, og hefur ekki verið kvartað meira undan henni síðan."


(af visir.is)


sunnudagur, október 14, 2007

Vá, vá, vá...

Ég komst að því í gær að ég er ekki orðin nógu gömul til að sitja og hlusta á tónleika. Hefði kunnað betur við mig í þvögu uppvið svið þar sem ég hefði allavega getað hreyft mig aðeins í takt. Það er bara eitthvað kjánalegt við að sitja kyrr á rassinum og hlusta á tónlist sem maður er á annað borð að fíla í botn.

Tónleikarnir voru engu að síður tær snilld! Megas í góðu formi og þvílíkt safn af listamönnum sem spiluðu með honum... vaaaaaá. Númer eitt var Guðmundur Péturs á gítar og hólí krapp hvað hann var góður. Restina skipuðu meðlimir Hjálma sem eru auðvitað allir snillingar.

Jólanáttburður

Vælir útí
Veðr' og vindum
Vetrarnætur-

Langt meðan
Ljótir kallar
Liggja mömmu

Og pabbi'í druslum
Dauð'r í kompu'
Úr drykkju liggur

Hlandbrunnið
Braggabarn
Í barnavagni

miðvikudagur, október 03, 2007

Love is in the air...

Sumir segja að haustið sé rómantískasta árstíðin með sína fallegu liti og rjóðan kvöldhiminn. Þetta sannaðist í morgun, þegar ég vaknaði við þennan fallega ástarsöng fyrir utan gluggann.

Maður fær bara tár í augun.

þriðjudagur, september 25, 2007

Maður getur ekki verið heppinn alltaf

Fór með Súkkuna í skoðun. Alltaf smá taugatitringur þegar maður situr á kaffistofuni og horfir á gaurinn þjösnast á henni... skyldi hún sleppa? Skyldi ég þurfa að punga út einhverjum tíuþúsundköllum í nýtt púst? Nýja dempara? *svitn*

Slapp án athugasemda í fyrra en var ekki eins heppin þetta árið. Það er ljóst að ég neyðist til að verlsa nýja peru í annað parkljósið að framan.

Frjáls framlög vel þegin.

fimmtudagur, september 13, 2007

Myndir...

Nokkrar haustmyndir komnar í albúmið hér til hægri -->>

miðvikudagur, september 05, 2007

Í skólanum, í skólanum...

er skemmtilegt... og skrýtið, og scary, og spennandi, og stressandi að veeraaa.

Þriðji dagurinn í dag og ég sit hér inni í kaffiteríu í Þjóðarbókhlöðunni... sem ég hef bæ ðe vei aldrei áður stigið fæti inná. Sit og skrifa og hleð tölvuna fyrir næsta tíma. Háskólalífið einkennist mjög af ráfandi fólki í leit að innstungum til að hlaða lappana sína, enda flestir búnir að leggja stílabækurnar á hilluna, þó þær sjáist alveg ennþá. Ég passa mig allavega á því að hafa eina slíka í töskunni ef einhverjir tæknilegir örðugleikar skyldu poppa upp.

Á þessum þremur dögum hefur mér tekist að koma mér upp vöðvabólgu (held hún hafi reyndar byrjað á sunnudaginn). Mig grunar líka að ég sé að læra meira en gengur og gerist. Ætla að glósa uppúr lesbókunum og enda á því að þýða heilu kaflana. Svo lærir maður á þetta og verður smám saman skipulagðari; lærir ekkert fyrstu vikurnar og svo allt á þremur vikum fyrir próf :Þ

föstudagur, ágúst 31, 2007

Hvað nú?

Í dag er föstudagurinn 31. ágúst. Í dag er ég rúmlega 34 ára. Í dag eru 12469 dagar síðan ég leit fyrst dagsins ljós. Hvert er ég að fara með þessu?

Well.

Í dag fann ég grátt hár. Í mínu eigin rauðbirkna höfði.

Ég veit ekki alveg hvernig mér á að líða. Er þetta bara að verða búið? Get ég bara pakkað saman, og kvatt þennan heim? Slökkt ljósin, skellt í lás og hent lyklinum?

Ég veit ég má ekki láta bugast. Vera sterk og reyna að horfa björtum augum fram á við. Það er það sem blívur á svona stundum.

mánudagur, ágúst 27, 2007

þriðjudagur, ágúst 21, 2007

Ég er byssa á bakka

Ég get ekki setið á mér að pósta inn þessa snilld af Barnalandi. Eftir fréttir um Fisher Price leikföng sem voru innkölluð, ákvað þessi kona að senda tölvupóst til fyrirtækisins. Hún gerði uppkast á ensku og bað um ritskoðun þar sem hún væri ekki nógu sleip í enskunni:

"Hello
i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray :)
I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorer and this toy are maid in China 2002-2007.
One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but I am not sure made 2003.
Are something wrong this toy or?????
What can I do??
Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better????

I hope you can anther stand what I am writing :)
And thank you

Respectfully
xxx"

Einn snillingurinn á BL þýddi herlegheitin yfir á íslensku:

"Halló,
Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka.
Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007.
Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.
Eru eitthvað að þessu leikfangi eða?????
Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta betur?????

Ég vona að þú getir anther staðið það sem ég skrifa :)

Virðingarfyllst,
xxx"

sunnudagur, júlí 22, 2007

Áts

Fór á mótorhjólinu í Kjósina í dag í mínu mesta sakleysi. Steig af hjólinu á áfangastað og teigði úr mér og fann þá sting í handlegginn. Hugsaði með mér að líklega hefði þetta verið eitthvað á olnbogahlífinni í jakkanum og spáði ekki í það meir.

Settist inn með gömlu hjónunum og fékk kaffi og meððí og fannst ég eitthvað skrýtin í handleggnum. Hann orðinn rauður og aumur... það skyldi þó ekki vera?

Tók jakkann minn og hristi ermina og hvað haldiði að hafi dottið niður úr henni á gólfið?

Núna á Gulli Geitungur heima í rotþró uppi í Kjós. Honum var nær.

mánudagur, júlí 16, 2007

Hlýnun jarðar



mánudagur, júlí 09, 2007

Heima, sæta heima...

Næst þegar ég fæ geðveika hugdettu eins og t.d. að ganga á 24 fjöll á sólarhring, vill einhver vinsamlegast loka mig inni þangað til mér snýst hugur. -Takk.

Enívei, ég er komin niður... í heilu lagi eða því sem næst. Þessi ganga var klárlega mesta líkamlega og andlega þolraun sem ég hef gengið í gegnum. Hvannadalshnjúkur var lautarferð í samanburði!

Við lögðum af stað klukkan hálf níu á laugardagsmorgni í svartaþoku, en gengum uppúr henni á fyrsta klukkutímanum. Eftir það vorum við í sólskini í heilan sólarhring. Sólin rétt tyllti sér undir hafflötinn í augnablik áður en hún reis aftur og maður ber þess augljós merki í dag, vel steiktur þrátt fyrir sólarvörn!

Gangan sjálf var... tjah, hvað get ég sagt... hryllingur? Við gengum til skiptis í lausum stórgrýtis skriðum þar sem hvergi var fast undir fótum, meira að segja stóru björgin fóru af stað þegar maður steig á þau... og blautum snjó. Við fórum með fjallshryggjum þar sem hægt var, og þegar maður klöngraðist í skriðunum með þverhnípi á báðar hliðar, þá setti maður upp ímyndaða vagnhestaleppa og þóttist ekkert sjá. Leit hvorki upp né niður, en var þeim mun uppteknari af tánum á sér. Víða þurftum við líka að klöngrast í snarbröttum klettum með sama ótrausta undirlendið undir fótum. Ekki uppáhalds aðstæður þeirra sem þjást af lofthræðslu (*réttupphönd*). Snjórinn gerði það svo að verkum að allir voru orðnir blautir í fætur fljótlega eftir að við lögðum af stað þrátt fyrir legghlífar og minnkafeiti, og eftir það gengum við með polla í skónum í 20 tíma. Í lokin var þreytan orðin svo mikil að ef ég settist niður á stein til að hvíla mig þá dottaði ég, og þá voru enn 15 km eftir. En á einhverjum yfirnáttúrulegum viljastyrk sem ég vissi ekki að ég ætti til, komst ég alla leið.

Þegar við loksins komum niður 25 tímum eftir að við lögðum í hann, tók björgunarsveitin Súlur á móti okkur með heitu kakói og kringlum og svo var okkur skutlað að bílunum sem við höfðum skilið eftir við Skíðahótelið hinum megin í dalnum. Ég brunaði niður á tjaldstæði í sturtu, henti mér inn í tjald í 4 tíma og lagði svo af stað í bæinn.

Merkilegt nokk þá slapp ég með tvær blöðrur á tánum og mar á ökklanum eftir vinstri skóinn. Smá strengi og massívan sólbruna.

Tvennt stendur uppúr eftir þessa mögnuðu göngu; góður félagsskapur og stórkostlegt útsýni. Myndir má finna í link hér til hægri og ég mæli með að stilla á slideshow þar sem þær eru nokkuð margar.

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Labbi-labb... og meira labb

Jæja, senn líður að göngunni miklu. Ætla að dóla mér norður á morgun og vona að ég fái tjaldstæði, en það er víst íþróttamót á Akureyri akkúrat núna um helgina. Í versta falli sefur maður bara í bílnum.

Gangan hefst klukkan 8:00 á laugardagsmorgun og er reiknað með að henni ljúki um svipað leiti á sunnudagsmorgun. Gengnir verða 24 tindar (að meðaltali einn tindur á klukkutíma), leiðin er tæpir 50 km. og samanlögð hækkun um 4000 metrar (u.þ.b. tveir Hvannadalshnjúkar).

Ég veit eiginlega ekkert hvað ég er að fara útí, svo það verður bara að koma í ljós hvort ég næ að klára þetta :)

Fólki er allavega í sjálfsvald sett hversu langt það fer og verður ferjað niður í byggð ef á þarf að halda.

Nú er bara að vona að hann hangi þurr og maður fái þokkalegt skyggni yfir þessar fallegu sveitir þarna í kring. Ekki spennandi tilhugsun að ganga í 24 tíma í þoku.

Frekari fréttir fylgja eftir helgi og vonandi ein eða tvær myndir líka :)

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Önnur sólbaðssaga

Ég fór í Nauthólsvíkina eftir vinnu í dag til að ná síðustu sólageislunum.

Ligg þar eins og skata á teppinu mínu þegar ég heyri ég í litlum strák koma labbandi með pabba sínum. Stákurinn kemur nær og er eitthvað að skoða mig og svo heyri ég eftirfarandi:

Pabbinn: "Þetta er allt í lagi, hún er bara í sólbaði"
Stráksi: "Hún er lifandi...?"
Pabbinn: "Jájá, hún er lifandi"

Svo rölta þeir feðgar sinn veg...

fimmtudagur, júní 28, 2007

Það er komið sumar

Ég tók mér frí eftir hádegi einn dag nú í vikunni og ákvað að skreppa út í Öskjuhlíð. Finnst ósköp notalegt að liggja þar ein og sleikja sólina þegar vel viðrar.

Svo ég arka af stað með teppið mitt og finn mér góðan stað þarna í trjálundi. Þar sem ég ligg og dorma kemur allt í einu maður gangandi. Hann hikar eitthvað en heldur svo áfram og hverfur á milli trjánna. Ég lét mér fátt um finnast, þrátt fyrir að hafa heyrt margar perrasögur úr þessari sömu hlíð. Maðurinn leit ósköp sakleysislega út, snyrtilegur til fara í skyrtu og jakkafatabuxum.

Nema hvað, eftir nokkrar mínútur kemur hann aftur og leggst nú niður á teppi þarna rétt hjá mér. Mér fannst þetta jú, dálítið skrýtið en spáði ekki meira í það enda steikjandi sól, hlý gola og hrossagaukar hneggjandi um háloftin.

Eftir dálitla stund er ég að snúa mér við á teppinu og verður litið á manninn... sem liggur þá þarna á teppinu sínu allsnakinn...!

Ég leit undan og vonaði að ofbirtan hefði ekki valdið mér rafsuðublindu, enda maðurinn eins og risastórt endurskinsmerki. Svo smeygði ég mér í skóna, tók teppið mitt og fann mér annan stað fyrir sólbaðið, á aðeins opnara svæði.

Einhver spurði mig hvort ég hefði ekki verið neitt smeyk? En þar sem ég stóð full klædd og horfði niður á berrassaðann drenginn, get ég ekki sagt að mér hafi þótt stafa nein hætta af honum. Sjálfsagt var honum bara heitt :)

sunnudagur, júní 24, 2007

Hjálmar og hjálmar

Fór á snilldar tónleikar á Nasa í gær þar sem Hjálmar tróðu upp ásamt KK og Megasi. Hjálmar voru hrikalega góðir og spiluðu allan tímann. KK var frábær og Meistarinn sjálfum sér líkur. Megas spilaði reyndar allt of stutt, ekki nema hálftíma eða svo, en hann var þó í góðu formi (á Megasar mælikvarða) og þessi hálftími var vel nýttur :)

Rúllaði svo á hjólinu í dag austur að Geysi þar sem bifhjólafólki var boðið í kaffi og með'ðí. Yndislegt veður, en trufluð umferð í bæinn.

Talandi um hjálma... þið vitið hvernig framrúðan verður á keyrslu úti í sveit á sumrin. Well, þið ættuð að sjá hjálminn minn eftir hjólatúrinn í dag *bjakk!*

miðvikudagur, júní 06, 2007

Tilkynningaskyldan

Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á vanrækslunni, en í staðinn skal ég koma með fullt af fréttum til að bæta ykkur tilfinningalegt tjón.

Í fyrsta lagi... ég er ólétt. DJÓÓÓÓÓK!!

Ok, ég er hætt að stríða. Hér koma fréttirnar:

* Sótti um í Háskóla Íslands
* Komst inn!
* Sótti um í Stúdentagörðunum (allir að krossleggja fingur)
* Sótti um námslán
* Byrja í haust, nánar tiltekið 3. september í Félagsráðgjöf; 3 ár í BA og 2 í viðbót í Master til starfsréttinda.

Það fer sumsé að líða að því að ég kveðji Össur hf. Ekki laust við trega enda margt frábært fólk þar sem ég mun sakna. Stefni samt á að vinna í jóla- og sumarfríum svo ég fæ smá aðlögunartíma... eða frálögunartíma?

Við tekur nýr og spennandi tími (viljið þið minna mig á að hafa sagt þetta þegar ég verð hérna grenjandi yfir prófunum) og ég hlakka til!

þriðjudagur, maí 22, 2007

Rakst á þessa snilld á öðru bloggi

Stuttar bækur:

Fölskvalaus iðrun - eftir Árna Johnsen
Stjórnmálaflokkar sem ég á eftir að prófa - eftir Kristin H. Gunnarsson
Tískuhandbók tölvunarfræðingsins
Hlutir sem ég hef ekki efni á - eftir Björgúlf Thor Björgúlfsson
Villtu árin - eftir Geir H. Haarde
Hvernig halda skal formannssæti - Össur Skarphéðinsson
Félagatal Framsóknarflokksins
Kúnstin að vera krúttlegur - eftir Gunnar Birgisson
Vinsælustu lögfræðingar landsins
Hvernig á að bjóða útlendinga velkomna - eftir Jón Magnússon
Hafarnaruppskriftir - Náttúruverndarsamtök Íslands
Þingmannsárin - eftir Jón Sigurðsson
Það sem mér líkar vel í fari framsóknarmanna - eftir Steingrím J. Sigfússon

fimmtudagur, maí 17, 2007

Súkkusafnarinn

Nýr fjölskyldumeðlimur hefur bæst í hópinn. Suzuki Savage 650cc '87. 20 ára gamalt dekurhjól sem hlýtur að teljast ágætis byrjun :)

sunnudagur, maí 06, 2007

Labbilabb

Vaknaði klukkan sex og gekk á Þverfellshornið. Hélt svo áfram sem leið liggur austur eftir Esjunni og alla leið yfir í Kjós. Veðrið var eins og ég hefði pantað það og útsýni til allra átta. Labbið tók 5 og hálfan tíma, 18,5 km leið.

Endaði í bústaðnum hjá gamla settinu og fékk kaffi og meððí áður en pabbi skutlaði mér til baka að bílnum.

Frábært labb, en í dag er einmitt ár frá því ég gekk á Hvannadalshnjúk.

Setti inn myndir frá þessum fallega degi ->>

þriðjudagur, maí 01, 2007

Stereótýpur

Ég kíkti í Smáralindina áðan, þar sem Sniglarnir enduðu sína árlegu 1. maí keyrslu. Hvorki meira né minna en 670 hjól mættu á planið og fljótlega fylltist húsið af mótorhjólastrákum og stelpum.

Þegar ég labbaði fram hjá nammi.is var þar biðröð fram á gang, sem samanstóð af leðurjökkum, hauskúpum, tattúum, keðjum og hausklútum... allir að kaupa bland í poka ;)

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Skemmtilegt próf

Ertu stelpustrákur eða strákastelpa?

Ég fékk 180 stig.

"Stigagjöf frá 150 til 180 ber vott um sveigjanleika í hugsun hjá báðum kynjum eða fótfestu í herbúðum beggja. Þessir einstaklingar sýna hvorki ákveðnar hneigðir til karlmiðaðrar né kvenmiðaðrar heilastarfsemi og eru venjulega sveigjanlegir í hugsun sem er vitaskuld afbragðs eiginleiki fyrir alla sem þurfa að leysa vandamál. Þeir hafa og tilhneigingu til að vingast bæði við karla og konur."
Gleðilegt sumar!

Og takk fyrir veturinn, sem var nú svosem ekki mikill vetur.

Veðrið er yndislegt, sem hlýtur að lofa góðu. Svo fraus vel saman í nótt, var 5 stiga frost þegar ég fór á fætur klukkan sex.

Fannst tilvalið að byrja sumarið á því að labba á Esjuna. Hafði ekki heimsótt hana síðan í fyrravor.

Setti inn nokkrar myndir...

föstudagur, apríl 13, 2007


Easter Bunny from Hell

Og stelpan brosir bara!



þriðjudagur, apríl 10, 2007

Gleðilega Páskegga

Hér átu allir yfir sig af súkkulaði eins og vera ber. Mæli með hvítu eggjunum frá Góu (sem reyndar þarf að sérpanta) fyrir þá sem vilja breyta til.

Nokkrar myndir frá helginni í albúminu hérna hægra megin.

*knús*

þriðjudagur, mars 27, 2007


Sólin skín...

Lóan er komin, krókusarnir byrjaðir að springa út fyrir utan gluggann hjá mér, og það án þess að ég hafi orðið vör við að nokkur vetur kæmi? 2-3 snjóskvettur sem fóru jafnfljótt og þær komu.

Er hægt annað en að brosa með sjálfum sér á góðum degi og láta sig dreyma allt sem sumarið hefur í vændum :)

sunnudagur, mars 25, 2007

Djö...

Og engin mynd af sparibauknum.

sunnudagur, febrúar 25, 2007

Af hverju ekki?

Af hverju ekki að vana kynferðisafbrotamenn? Þegar maður brýtur af sér á þennan hátt, ítrekað og engar meðferðir eða refsingar bera árangur?

Það telst víst brot á mannréttindum einstaklingsins, en hvaða réttindi hefur maður sem eyðileggur líf annarra markvisst til að svala afbrigðilegum hvötum sínum? Ef til er leið til að bæla þessar hvatir, hvers vegna er þeim ekki beitt og hvers vegna fá þeir aftur og aftur tækifæri til að brjóta af sér? Hver eru mannréttindi þeirra einstaklinga sem dæmdur kynferðisafbrotamaður á eftir að brjóta gegn þegar hann er búinn að sitja af sér?

Er maður sem misnotar börn ekki búinn að fyrirgera sér réttinum til að eignast sjálfur börn? Og er sá sem nauðgar ekki búinn að fyrirgera sér réttinum að fá að stunda kynlíf yfir höfuð?

Þungir þankar á sunnudagsmorgni. Farið vel með ykkur.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Ja hérna

Ég mæli með því að þið horfið á þetta til enda.

Scary? -Fokkin 'eh!

sunnudagur, janúar 28, 2007

Haustmyndir

Setti nokkrar nýlegar myndir í albúmið hérna til hægri.

mánudagur, janúar 22, 2007



32:24

Eru til fallegri tölur í heiminum? Ekki á þessum mánudegi.

Óumdeilanlega flottasti handbolti sem ég hef séð á ævi minni.

Vá.

sunnudagur, janúar 21, 2007


Þorrinn byrjaður

Alveg er mér fyrirmunað að skilja hvernig fólk getur lagt sér þetta til munns, hvað þá fundist það girnilegt eða gómsætt.

Held ég haldi mig bara við harðfiskinn, flatkökurnar og annað sem ég þarf ekki að "horfast í augu við".

laugardagur, janúar 13, 2007


Ekki örvænta

Flestir hafa örugglega orðið varir við veikindafárið síðustu vikur, ef þeir hafa þá ekki sjálfir lagst í bælið.

Annar hver maður hefur legið með hor og hausverk og margir gubbandi í ofanálag. Tveir sem ég þekki lágu í rúminu í þrjár vikur!

Í ljósi þessa fannst mér skondið að lesa eftirfarandi frétt á visir.is í gær:

"Flensan hefur enn ekki stungið sér niður, en læknar segja varla langt að bíða hennar, enda komi hún yfirleitt á þessum árstíma".

Þannig að fyrir ykkur sem voruð skilin útundan (eins og ég), er ennþá von til að ná sér í nokkur míkróskópísk gæludýr.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ó, nei... ekki KONUR!

Sá frétt í dag á mbl.is þar sem Vatíkanið gagnrýnir Dakar rallíið og meint ábyrgðarleysi aðstandenda þess. Í fréttinni kemur meðal annars fram að "...alls hafa 54 látist í tengslum við keppnina frá upphafi, þar á meðal eru átta börn og tvær konur."

Ókey, ég skil alveg að það sé tekið sérstaklega fram að börn hafi verið þarna á meðal. En af hverju konur? Af hverju er hvergi minnst á að x margir karlar hafi látist?

Þetta er auðvitað bara eitt af milljón svona dæmum þar sem setningin "konur og börn" hefur glumið í eyrum.

Ég get ekki lesið annað út úr svona frétt en að það sé mun hræðilegra að kona láti lífið en karl. Er það meint varnarleysi okkar sem gerir okkur að svona miklum fórnarlömbum?

Maður spyr sig...