mánudagur, júní 27, 2005

Scumbag

Ég afrekaði að stífla eldhúsvaskinn í gær. Förum ekkert nánar út í hvernig ég fór að því nema hvað grjónagrautur spilaði þar eitt af aðalhlutverkunum (með rúsínum). Það er svona að vera vanur að búa í útlöndum og vera með ruslakvörn (ég ætla allavega að nota það sem afsökun, frekar en eigin dómgreindarleysi). En... þar sem ég er útskrifuð með meirapróf á drullusokk (líka eftir að hafa búið í útlöndum, þar sem allar pípur, klósett og niðurföll virðast vera þrengri og þar af leiðandi stíflugjarnari en við eigum að venjast) þá dreif ég mig í dag eftir vinnu og fjárfesti í einum slíkum.

Drullusokkur er eitt af mínum uppáhalds verkfærum. Svona einfaldur og náttúruvænn en svínvirkar, og heitir svo svona skemmtilegu nafni. Allavega... ég kem heim með gripinn, bretti upp ermarnar (var reyndar í stuttermabol en hitt hljómar betur) og byrja að hamast á vaskinum með tilheyrandi sulli, soghljóðum og góðri lykt. Og eftir langa og stranga viðureign með sokkinn að vopni tókst mér loksins að losa stífluna (ég held mig muni ekki langa í grjónagraut á næstunni).

Jæja, í sigurvímunni ákvað ég að láta ekki staðar numið þar heldur athuga hvort mér tækist ekki að fá betra rennsli niður úr baðherbergis vaskinum líka, sem hefur verið eitthvað tregur alveg síðan við fluttum inn. Ég storma inn á bað með drullusokkinn á lofti, nú skyldi aldeilis tekið til hendinni. Eftir mikið og kröftugt hjakk, sull og svínarí var þó enginn munur á niðurrennslinu.

Og núna þegar ég skrúfa frá vaskinum, kemur vatnið beint upp um niðurfallið á gólfinu.


3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

haha :) þetta er næstum eins og þegar var skipt um ljósaperu hjá okkur og þegar var kveikt á sjónvarpinu kviknaði ljósið......
kv. Jóhanna og Bobby

Asdis sagði...

Mr. Muscle stíflueyðir hefur oft bjargað mér! Ég er ekki með drullusokkapróf ;)

Nafnlaus sagði...

Sæl og blessuð, já svona drullusokkar hafa bjargað mér oft og hér í okkar útlandi eru pípur andsk...mjóar og stífla oft. Góð þessi þýðing á Gamla Nóa, takk fyrir góðar hláturskviður tíhí, kveðja, Gurrý