mánudagur, júlí 09, 2007

Heima, sæta heima...

Næst þegar ég fæ geðveika hugdettu eins og t.d. að ganga á 24 fjöll á sólarhring, vill einhver vinsamlegast loka mig inni þangað til mér snýst hugur. -Takk.

Enívei, ég er komin niður... í heilu lagi eða því sem næst. Þessi ganga var klárlega mesta líkamlega og andlega þolraun sem ég hef gengið í gegnum. Hvannadalshnjúkur var lautarferð í samanburði!

Við lögðum af stað klukkan hálf níu á laugardagsmorgni í svartaþoku, en gengum uppúr henni á fyrsta klukkutímanum. Eftir það vorum við í sólskini í heilan sólarhring. Sólin rétt tyllti sér undir hafflötinn í augnablik áður en hún reis aftur og maður ber þess augljós merki í dag, vel steiktur þrátt fyrir sólarvörn!

Gangan sjálf var... tjah, hvað get ég sagt... hryllingur? Við gengum til skiptis í lausum stórgrýtis skriðum þar sem hvergi var fast undir fótum, meira að segja stóru björgin fóru af stað þegar maður steig á þau... og blautum snjó. Við fórum með fjallshryggjum þar sem hægt var, og þegar maður klöngraðist í skriðunum með þverhnípi á báðar hliðar, þá setti maður upp ímyndaða vagnhestaleppa og þóttist ekkert sjá. Leit hvorki upp né niður, en var þeim mun uppteknari af tánum á sér. Víða þurftum við líka að klöngrast í snarbröttum klettum með sama ótrausta undirlendið undir fótum. Ekki uppáhalds aðstæður þeirra sem þjást af lofthræðslu (*réttupphönd*). Snjórinn gerði það svo að verkum að allir voru orðnir blautir í fætur fljótlega eftir að við lögðum af stað þrátt fyrir legghlífar og minnkafeiti, og eftir það gengum við með polla í skónum í 20 tíma. Í lokin var þreytan orðin svo mikil að ef ég settist niður á stein til að hvíla mig þá dottaði ég, og þá voru enn 15 km eftir. En á einhverjum yfirnáttúrulegum viljastyrk sem ég vissi ekki að ég ætti til, komst ég alla leið.

Þegar við loksins komum niður 25 tímum eftir að við lögðum í hann, tók björgunarsveitin Súlur á móti okkur með heitu kakói og kringlum og svo var okkur skutlað að bílunum sem við höfðum skilið eftir við Skíðahótelið hinum megin í dalnum. Ég brunaði niður á tjaldstæði í sturtu, henti mér inn í tjald í 4 tíma og lagði svo af stað í bæinn.

Merkilegt nokk þá slapp ég með tvær blöðrur á tánum og mar á ökklanum eftir vinstri skóinn. Smá strengi og massívan sólbruna.

Tvennt stendur uppúr eftir þessa mögnuðu göngu; góður félagsskapur og stórkostlegt útsýni. Myndir má finna í link hér til hægri og ég mæli með að stilla á slideshow þar sem þær eru nokkuð margar.

5 ummæli:

ía sagði...

hæ sæta (og duglega auðvitað)
maður verður bara þreyttur af að ,,lesa af þér".
meðan ég dusta dorítósið af bringunni gengur þú yfir fjöllin sjö.
en þú mátt gjarna hafa mig með til hliðar...á síðunni
nýja síðan mín er
123.is/galleryarragus
kærasta kveðja
ía

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið elsku Eva mín.

eva sagði...

Takk dúllan mín :)

p.s. við þurfum að fara að hittast.

Asdis sagði...

Þú ert klikkuð kona!!

Til hamingju með að hafa klárað þessa þolraun!

Eftir þetta ætti ekkert að stöðva þig, alveg sama hvað þér dettur í hug að steypa þér út í!

Asdis sagði...

KLUKK