Þar sem hinn helmingurinn er staddur á Íslandi, sótti ég Júlíu í leikskólann í gær og fór með hana í vinnuna til að klára vaktina mína. Þetta gekk bara vel, Júlía skemmti sér og öðrum og fræddi samstarfsfólk mitt um ýmislegt, meðal annars þá staðreynd að ljón yrðu að grasi þegar þau deyja (Lion King var sko að koma út á DVD :)
Nema hvað, ég var að klippa þegar frökenin kemur fram með buxurnar á hælunum og segir; mamma, ég þarf hjálp... viltu girða mig? Mín hafði semsagt brugðið sér á klósettið og náð að toga niður um sig, en ekki upp aftur. Ykkur þykir þetta kannski ekki mikið mál, fjögurra ára rass er jú bara krúttlegur ekki satt?! Nema hvað, hér í landi er fólk afspyrnu miklar teprur og má því nánast líkja þessu við að ég hefði sjálf birst með buxurnar á hælunum!
...ég held ég ljúgi ekki þegar ég segi að ég hafi aldrei áður verið eins fljót að girða.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli