Úff! Þessi síðasta vika er búin að vera ansi merkileg. Hún byrjaði semsagt á því að á aðfaranótt mánudagsins ákvað flellibylurinn Juan að leggja leið sína yfir Nova Scotia. Þessa sömu nótt var ekki mikið sofið. Morguninn eftir var byrjað að lægja og ég fór framúr, rölti fram í eldhús og leit út um gluggann. Við mér blasti risastórt tré sem hafði fallið í bakgarðinum og ákveðið að lenda EKKI á svefnherberginu okkar, heldur lagðist snyrtilega út af langsum í garðinum. Nú veit ég hvað það er að renna kalt vatn milli skinns og hörunds!
Þegar hinn helmingurinn var kominn á fætur og við fórum að skoða í kringum okkur (fórum meðal annars í bíltúr um hverfið) komu í ljós fallin tré um allar jarðir, slitnar rafmagns- og símalínur og rusl og drasl útum allt. Sum trén höfðu lent á húsunum, þök höfðu skemmst og fokið, rúður brotnað, bílar skemmst af drasli sem fauk á þá, bátar sukku í höfninni og einn fauk upp á hafnarbakkann! Að ekki sé talað um vatnið sem flæddi um göturnar og inn í hús hjá fólki.
Rafmagnið fór auðvitað, og síminn líka. Síminn kom aftur daginn eftir en við fengum ekki rafmagn fyrr en á fimmtudagskvöld og sumir eru ennþá rafmagnslausir.
Fyrir okkur þýðir það ekki bara ljósleysi, heldur líka ekkert heitt vatn. En við erum orðin rosalega klár í að grilla allt mögulegt! :)
Auðvitað fór allt athafnalíf úr skorðum, engar búðir voru opnar og enginn mætti í vinnu. Skólarnir opna ekki aftur fyrr en á morgun og sumir seinna. En þetta er allt að skríða saman þó að ennþá eigi eftir að hreinsa mikið til.
Þetta var víst versta veður sem gengið hefur yfir í 40 ár. Sem betur fer var þó ekki kalt, 20 stiga hiti.
Adios.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli