Pirr dagsins í boði Rainbow Trout
Í dag var hið fínasta veiðiveður, bjart og smá vindur en ekki mikil sól eða hiti. Svo við ákváðum að fara í bíltúr og tókum auðvitað stangirnar með. Jæja, við stoppum við á rétt hjá Mosquitoboit Harbour, fallegur staður þar sem áin rennur undan brú og breiðir úr sér. Nema hvað, þarna vorum við í rúma tvo tíma, og áin var bókstaflega FULL af regnbogasilungi! Þeir syntu nánast yfir tærnar á okkur, stukku allt um kring og maður gat fylgst með heilu torfunum upp við bakkana. Þetta var auðvitað rosalega gaman og hefði örugglega verið enn skemmtilegra ef EITTHVAÐ HEFÐI BITIÐ Á. Ég byrjaði með spún, þá flugu og svo aftur spún þar til hann týndist (húkkaði grjót). Aðrir voru með flugur og öngla með maðki eða maísbaunum, sem landinn ku veiða á hérna (!). Um tíma sat ég uppi á brúnni og horfði niður á torfuna, danglaði flugunni niður í vatnið og lét hana tipla um yfirborðið, en þessir snobbfiskar voru greinilega ekki á þeim buxunum að láta krækja í sig.
(Reyndar sýndist mér sem þeir væru meira horny en svangir, af atferlinu að dæma :)
En við látum ekki bugast eftir þessa reynslu nema síður sé. Erum strax búin að plana annan túr um næstu helgi á annan stað. Sjáum til hvort sú ferð skilar einhverju...
Tharna eru their, bolvadir...
2 ummæli:
Erðanú fiskar! Skildu þeir ekki einu sinni ensku? "Jú hef tú bæt ðe húkk" Reyndu að segja þeim það næst ;)
Ég er nú ekki viss um að ég myndi tíma að veiða á ópal ef ég ætti það...!
Góð saga samt, ættuð að gera auglýsingu :)
Skrifa ummæli