miðvikudagur, september 04, 2002

Jæja, þá erum við komin heim úr ferðalaginu okkar til USA. Komum reyndar á sunnudaginn en höfum ekki orku fyrr en í dag til að skrifa ferðasöguna :)
Við lögðum sem sagt af stað á sunnudeginum 25. ágúst og keyrðum til Bangor, Maine á fyrsta deginum. Við fengum fínt ferðaveður, bjart og þurrt mestan hlutann. Daginn eftir keyrðum við í Six Flags skemmtigarðinn sem er alveg ótrúlega flottur með fjóra eða fimm rússíbana, þar á meðal einn sem er víst sá vinsælasti í heiminum. Erna, Selma og Geiri biðu í næstum einn og hálfan tíma í röð til að komast í hann en það var víst hverrar sekúntu virði. Daginn eftir var svo stefnan tekin á Williamsport, Pennsylvaniu til að heimsækja Vince. Þar eyddum við tveimur nóttum og lögðum svo af stað til New York sem var ekki nema rúmlega þriggja tíma keyrsla. Þar var farið í dýragarð og Frelsisstyttan skoðuð, en hún var reyndar lokuð svo við fengum ekki að fara upp. Og labbitúr á hafnarbakkanum á Manhattan í kvöldsólinni. Á laugardeginum lögðum við af stað til Montréal og var meiningin að gista þar. Þegar þangað kom reyndust öll hótelin fullbókuð og við gátum ekki annað gert en að halda áfram keyrslunni í áttina heim og vonast til að fá gistingu á leiðinni. Eftir að hafa stoppað á fimmþúsundáttahundruðogsextíu hótelum á leiðinni (allavega næstum því) sem öll voru full bókuð, gáfumst við upp. Við skiptumst á að keyra og stelpurnar sváfu afturí, en þær stóðu sig ótrúlega vel greyin. Við náðum loks heim um þrjúleitið á sunnudeginum og voru allir mjög þreyttir. Nú vantaði bara viku í viðbót til að hvíla sig heima :) En þetta var allt þess virði og ferðin í alla staði frábær.

föstudagur, júlí 12, 2002

Í dag er kominn 12. júlí sem þýðir hvað...? Jújú, 364 dagar í 30! *gulp* Eiginmaðurinn yfirgaf mig daginn fyrir afmælið og stakk af til Íslands. Hann verður semsagt í viku og ætlar svo að taka Mæju systur sína með til baka til að passa Ernu og Selmu á daginn á meðan við erum að vinna/skólast. Afmælisdagurinn var annars ágætur (engar nýjar hrukkur) stelpurnar í skólanum voru svo sætar við mig, ein bakaði muffin og svo buðu þær mér út í hádegismat. Svo þegar ég kom heim þá voru hinar stelpurnar (mínar) búnar að dúka borð með Spiderman dúk og pappadiskum og servíettum. Svo við borðuðum pæ og ís og rjóma af Spidermandiskum. Og auðvitað fékk ég pakka.
Annars er lítið að frétta nema Selma er komin með gleraugu og þar með er næst síðasta vígið fallið (bara Júlía eftir). Það var svosem viðbúið, enda gleraugnaglámar á báðum endum. En hún er allavega hæstánægð með nýju gleraugun.
Það er spáð sól um helgina svo við förum örugglega á ströndina, og svo verð ég með grill fyrir stelpurnar úr skólanum annað kvöld og ormarnir verða í pössun á meðan. Svo ég segi bara góða helgi á meðan.

mánudagur, júní 03, 2002

Jæja, mér sýnist þetta vera barasta í góðu lagi. Svona er nú tæknin dásamleg (nema þegar hún er að stríða okkur). Annars datt mér í hug að hafa þetta sem svona nokkurs konar dagbók... eða vikubók eða eitthvað. Lítil von til þess að ég nenni að skrifa á hverjum degi, hvað þá að ég hafi eitthvað merkilegt að segja! En kannski ég noti þetta til að skrifa svona hversdagslega hluti sem gaman er að deila með öðrum en verða kannski útundan þegar maður er að tala í símann eða senda tölvupóst.
Eigum við þá að byrja? Ok... dagur eitt, kæri Jóli...
Nú er barasta kominn þriðji júní og ég eiginlega neita að trúa því. Þetta síðasta hálfa ár eða svo hafa mánuðirnir hreinlega flogið áfram svo hratt að það hálfa væri yfirdrifið! Og í hverjum mánuði segir maður; ég TRÚI EKKI að það sé kominn febrúar..mars...apríl...o.s.frv! En það hlýtur að vera gott, ekki satt? Time sure is fun when you're having flies (sagði froskurinn). Allavega, Geiri fór til Atlanta í dag og skildi okkur al-fjórar eftir (nú lítur Kría á mig með vanþóknun því ég taldi hana ekki með). Businessferð að sjálfsögðu, gaman gaman. Við náttúrulega höldum bara okkar striki stelpurnar, allar í skóla/leikskóla og nóg að gera. Annars er nú að koma háttatími hérna, klukkan að verða tíu og farið að vega að átta tíma svefninum. Kannski maður reyni að læra af slæmri reynslu og fara að sofa, þó það sé freistandi að vaka aaaaaðeins lengur. Búin að fá svoleiðis kæruleysi aðeins of oft í hausinn daginn eftir :) Svo ég segi bara góða nótt.
Haldénú! Jæja, skyldi þetta nú virka?

þriðjudagur, maí 28, 2002

Testing...1,2,3