sunnudagur, júní 22, 2008

Hvar endar þetta?

Fyrir þremur og hálfu ári þegar ég flutti heim frá Kanada, fékk ég sjokk yfir bensínverðinu hérna. Líterinn kostaði þá um 80 krónur sem var tvöfalt það verð sem ég átti að venjast í Halifax.

Í dag fyllti ég bílinn og grét söltum tárum yfir þeim 169 krónum sem fóru í hvern bensínlítra.

Með þessu áframhaldi endar maður á því að þurfa að selja bílinn til að eiga fyrir bensíni.

sunnudagur, júní 08, 2008

Flutt :)

Fyrsta nóttin í 101 að baki og svaf ég vel en man þó lítið hvað mig dreymdi, enda óberdreymin með eindæmum. Vaknaði við sólskin og fuglasöng og byrjaði daginn á því að gera dauðaleit að pressukönnunni sem var með því síðasta sem var pakkað niður í gærmorgun. Fann hana að lokum eftir mikið grams, hellti upp á dýrindis kaffi og þá vantaði mjólk. Svo ég rölti út á stuttermabolnum í sólskininu með fuglasöngnum í 10-11 hérna rétt handan hornsins.

Þannig að mín fyrsta upplifun á því að vera Reykvíkingur er bara góð og ekkert nema tilhlökkun til framhaldsins.

En svona fyrst ég er byrjuð þá hef ég hreinlega ekki haft tíma til að segja frá Lómagnúps göngunni um síðustu helgi. Sú ferð var hrein snilld frá a til ö. Við lögðum af stað þrjár stelpur á föstudeginum með fellihýsi í eftirdragi og vorum komnar á Kirkjubæjarklaustur rétt undir tíu. Fengum okkur einn bjór til að sofa betur og mingluðum við liðið (Útivist). Um hádegi daginn eftir var lagt af stað og gengið upp vestan megin, sem er styttri leið en sú austari en um miðja leið þarf að klífa ansi vígalegan klett með hjálp keðju og leist sumum alls ekki á blikuna, og enn síður á niðurleiðinni. En Lómagnúp sigruðum við og það var stórkostlegt að standa frammi á brún og horfa niður 600 metra klettinn sem eitt sinn var barinn af sjó.

Öll komumst við niður á endanum og um kvöldið var grillað og sötrað og skrafað fram undir morgun.

Myndir úr göngunni má finna hér til hægri -->

Verið svo velkomin í heimsókn, nánari upplýsingar um staðsetningu veittar í tölvupósti ;)