fimmtudagur, júní 28, 2007

Það er komið sumar

Ég tók mér frí eftir hádegi einn dag nú í vikunni og ákvað að skreppa út í Öskjuhlíð. Finnst ósköp notalegt að liggja þar ein og sleikja sólina þegar vel viðrar.

Svo ég arka af stað með teppið mitt og finn mér góðan stað þarna í trjálundi. Þar sem ég ligg og dorma kemur allt í einu maður gangandi. Hann hikar eitthvað en heldur svo áfram og hverfur á milli trjánna. Ég lét mér fátt um finnast, þrátt fyrir að hafa heyrt margar perrasögur úr þessari sömu hlíð. Maðurinn leit ósköp sakleysislega út, snyrtilegur til fara í skyrtu og jakkafatabuxum.

Nema hvað, eftir nokkrar mínútur kemur hann aftur og leggst nú niður á teppi þarna rétt hjá mér. Mér fannst þetta jú, dálítið skrýtið en spáði ekki meira í það enda steikjandi sól, hlý gola og hrossagaukar hneggjandi um háloftin.

Eftir dálitla stund er ég að snúa mér við á teppinu og verður litið á manninn... sem liggur þá þarna á teppinu sínu allsnakinn...!

Ég leit undan og vonaði að ofbirtan hefði ekki valdið mér rafsuðublindu, enda maðurinn eins og risastórt endurskinsmerki. Svo smeygði ég mér í skóna, tók teppið mitt og fann mér annan stað fyrir sólbaðið, á aðeins opnara svæði.

Einhver spurði mig hvort ég hefði ekki verið neitt smeyk? En þar sem ég stóð full klædd og horfði niður á berrassaðann drenginn, get ég ekki sagt að mér hafi þótt stafa nein hætta af honum. Sjálfsagt var honum bara heitt :)

sunnudagur, júní 24, 2007

Hjálmar og hjálmar

Fór á snilldar tónleikar á Nasa í gær þar sem Hjálmar tróðu upp ásamt KK og Megasi. Hjálmar voru hrikalega góðir og spiluðu allan tímann. KK var frábær og Meistarinn sjálfum sér líkur. Megas spilaði reyndar allt of stutt, ekki nema hálftíma eða svo, en hann var þó í góðu formi (á Megasar mælikvarða) og þessi hálftími var vel nýttur :)

Rúllaði svo á hjólinu í dag austur að Geysi þar sem bifhjólafólki var boðið í kaffi og með'ðí. Yndislegt veður, en trufluð umferð í bæinn.

Talandi um hjálma... þið vitið hvernig framrúðan verður á keyrslu úti í sveit á sumrin. Well, þið ættuð að sjá hjálminn minn eftir hjólatúrinn í dag *bjakk!*

miðvikudagur, júní 06, 2007

Tilkynningaskyldan

Ég vil byrja á að biðjast afsökunar á vanrækslunni, en í staðinn skal ég koma með fullt af fréttum til að bæta ykkur tilfinningalegt tjón.

Í fyrsta lagi... ég er ólétt. DJÓÓÓÓÓK!!

Ok, ég er hætt að stríða. Hér koma fréttirnar:

* Sótti um í Háskóla Íslands
* Komst inn!
* Sótti um í Stúdentagörðunum (allir að krossleggja fingur)
* Sótti um námslán
* Byrja í haust, nánar tiltekið 3. september í Félagsráðgjöf; 3 ár í BA og 2 í viðbót í Master til starfsréttinda.

Það fer sumsé að líða að því að ég kveðji Össur hf. Ekki laust við trega enda margt frábært fólk þar sem ég mun sakna. Stefni samt á að vinna í jóla- og sumarfríum svo ég fæ smá aðlögunartíma... eða frálögunartíma?

Við tekur nýr og spennandi tími (viljið þið minna mig á að hafa sagt þetta þegar ég verð hérna grenjandi yfir prófunum) og ég hlakka til!