sunnudagur, maí 21, 2006


Ja hérna!

Aldrei á ævinni hef ég skemmt mér eins vel yfir Júróvisjón! Það að nokkrir miðaldra þungarokkarar í skrímslabúningum hafi unnið, er ekkert nema snilld. Ég hef aldrei nennt að taka þátt í svona kosningu en Finnar fengu sko mitt atkvæði í ár :)

Mikið rosalega held ég að keppnin á næsta ári verði flott. Þetta var akkúrat það sem þurfti; að rífa þetta aðeins upp úr þessu útburðarvæli sem hefur einkennt keppnina undanfarið.

Lordi rokka!

mánudagur, maí 15, 2006


Nýr E-mobile

Það er með stolti sem ég leyfi mér að kynna nýjasta meðlim fjölskyldunnar. Sá er á fjórum hjólum (með drifi á þeim öllum) og gegnir nafninu Suzuki Vitara. Nú er bara spurning hvort sumarfríið sé nógu langt til að kanna alla þá staði sem hafa verið mér ófærir hingað til :)

(P.s. vantar einhvern ódýra notaða Corollu? ;)

mánudagur, maí 08, 2006


Success!

Lögðum af stað uppúr þrjú á föstudeginum, sem leið lá í austur. Stoppuðum í Vík og fengum okkur hamborgara með öllu tilheyrandi, svona til að hlaða fyrir næsta dag. Vorum komin í Svínafell um áttaleitið, þar sem við gistum í fjórum fjögurra manna skálum. Ég var í skála með þremur herramönnum, sem ákváðu þessa nótt að fara í hrotukeppni, sem varð mér til lítils svefns!

Vöknuðum klukkan fjögur á laugardagsmorgninum og fengum okkur kjarngóðan morgunmat, og keyrðum svo inn að Sandfelli þaðan sem labbið hófst rétt uppúr sex.

Veðrið var algjörlega meiriháttar í byrjun göngunnar, morgunsólin skein á jöklana og fjöllin í kring. En þegar ofar dró fór að þykkna upp og jöklaþokan tók völdin. Þannig var það alla leið upp á topp, en upp komumst við! Það var ekki leiðinlegt að standa loks á tindinum sem við erum búin að vera að stefna á síðustu mánuði.

Öðru hverju rofaði þó aðeins til og útsýnið var bara stórkostlegt. Þegar við vorum að príla niður Hnjúkinn byrjaði hann að rífa af sér og blasti við okkur í öllu sínu veldi. Og allt í einu leið manni eins og pínulitlu krækiberi, og fannst hreint ótrúlegt að hafa staðið uppi á þessu ísstáli nokkrum mínútum áður.

Ferðin niður gekk vel og við gengum niður úr þokunni á svipuðum stað og hún hafði byrjað. Þá tók við kvöldsólin sem baðaði Öræfin, og ekki var það nú ljótt að sjá :)

Kom niður um fjórtán tímum eftir að gangan hófst; níu tíma upp og fimm niður. Þar þurfti ég að hinkra eftir samferðamönnum mínum sem voru með mér í bíl, og var orðin ansi stíf og "hrolluð" þegar þeir skiluðu sér. Ég hlakkaði mikið til að komast í heita sturtu á Svínafelli, og þegar þangað kom dreif ég mig og náði í föt til skiptanna og inn í sturtu. Nema hvað, vatnið er gashitað og heita vatnið var búið! Þannig að ég fór hrollköld í kalda sturtu, auk þess sem allt inni í klefanum var mígandi blautt svo fötin mín blotnuðu líka.

Jæja, adrenalínið varð að duga til að ylja mér og smá rauðvín hjálpaði líka til. Svo voru grilluð þrjú lambalæri og runnu ljúflega niður í mannskapinn sem var búinn að nærast á samlokum og súkkulaði í heilan dag.

Fórum í háttinn klukkan að ganga eitt, rúmum tuttugu tímum eftir ræsið um morguninn. Og engar hrotur hefðu getað haldið fyrir mér vöku þessa nótt :)

Vöknuðum hress uppúr átta á sunnudeginum og héldum af stað í bæinn eftir morgunmat og frágang. Við þremenningarnir í mínum bíl komum við í sundlauginni á Vík og lögðumst í bleyti í heita pottinn, sem var notalegra en svo að ég ætli að reyna að lýsa því.

Komin heim um fjögurleitið með feitt bros á vör, sem fer örugglega ekki af á næstunni :)

mánudagur, maí 01, 2006


Countdown to Mt. Hvannadals Peak

Í dag var síðasta æfingin fyrir Hvannadalshnjúk, enda bara 5 dagar til stefnu.

Síðan við byrjuðum að æfa í febrúar hef ég gengið 6 sinnum á Esjuna, þar af þrisvar upp að Steini og þrisvar upp á Þverfellshorn. Auk þess einu sinni á Móskarðshnjúkana, Ármannsfellið, Botnssúlur og Vífilsfell.

Maður er allavega kominn í þokkalegt form og ætti því að geta fengið helling út úr næstu helgi, þ.e. ef við fáum gott veður. Nú veltur allt á því hvort það verður farið upp eða ekki (og já, það eru margir sem þurfa að hætta við eða snúa við á leiðinni vegna veðurs).

En við erum full bjartsýni (þar til annað kemur í ljós)!

(Sé ég krosslagða fingur?)