laugardagur, desember 30, 2006

Nú árið er (næstum) liðið...

Jæja, nú líður senn að lokum þessa annars ágæta árs, og nýtt og ferskt tekur við í staðinn.

Í tilefni þess ætla ég að biðja alla að skrifa besta eða skemmtilegasta ráðið við þynnku sem þeir kunna í kommentaboxið :)

Takk fyrir samfylgdina á árinu og vonandi hef ég frá einhverju skemmtilegu að segja á því næsta.

Skemmtið ykkur vel á gamlárskvöld og farið varlega!

Blaðrarinn

laugardagur, desember 23, 2006

Gleðileg jól elskurnar mínar! Munið að slaka á og njóta þeirra, borða vel, hvílast og vera góð hvert við annað.

*Jólaknús*

miðvikudagur, desember 06, 2006

Ert´í fýlu?

Selma gladdi mig með þessu skemmtilega myndskoti :)

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Hiksti - Sönn saga

Strákur og stelpa eru á labbi um kvöld niðri í bæ. Kaupa sér pizzu og smjatta á henni upp úr boxinu.

Þegar þau hafa étið nægju sína, spyrja þau gaur sem þarna var á labbi hvort hann vilji klára pizzuna. Hann hélt það nú og þau labba áfram.

Strákurinn fær hiksta.

Þar sem þau eru á rölti mæta þau aftur gaurnum sem þau gáfu pizzuna. Sá var víst bæði stór og kraftalega vaxinn... víkur sér að stráknum og segir í ásökunartón: "Þú tókst veskið mitt!"

Stráksi þrætir fyrir en hinn æsist allur upp og er á endanum farinn að öskra á hann:"Komdu með veskið mitt!!"

Stráknum leist ekkert á blikuna (orðinn skíthræddur) og sá að þetta stefndi aðeins í eitt; blóðug slagsmál, þar sem það yrði að öllum líkindum hann sjálfur sem leggði til blóðið.

Gellur þá í gaurnum, sem skyndilega var orðinn pollrólegur: "Er hikstinn farinn? -Vissi það... virkar alltaf!"

:D

laugardagur, nóvember 11, 2006

Eilífur Friður?

Mikið líst mér vel á þessa hugmynd.

Finnst alveg fáránlegt að einhverjir jakkafataplebbar geti tekið sér það bessaleyfi að ætla að ákveða hvað annara manna börn megi og megi ekki heita.

Fyrir utan það að miðað við þau nafnaskrípi sem maður heyrir að fólk sé að gefa erfingjum sínum, þá er þessi blessaða nefnd nú ekki að skila miklum árangri.

Verst að eiga ekki strák... hann gæti heitið Ljótur Ormur.
Myndir...

Henti loksins inn nokkrum myndum frá Quebec, svona áður en Rósa fer alveg á límingunum ;)

Þetta eru myndir frá Halloween vikunni og svo Iron Maiden tribute tónleikunum frægu.

mánudagur, nóvember 06, 2006

Ó mæ

Komin heim eftir vægast sagt skrautlegt ferðalag. Flaug frá Quebec til Montréal, og svo Boston þar sem við höfðum nokkra klukkutíma til að skoða okkur um í borginni. Svo var það lokaflugið til Íslands, sem lagði af stað tímanlega um kvöldið.

Eftir fjögurra tíma flug til Keflavíkur var ekki hægt að lenda vegna veðurs og var ákveðið að hringsóla og sjá hvort vindinn lægði. Eftir klukkutíma hringsól var stefnan tekin á Glasgow þar sem allir þurftu að taka farangurinn sinn og bíða frekari frétta í flugstöðinni. Þetta var klukkan hálf níu á sunnudagsmorgni. Við gátum ekkert farið þar sem við máttum ekki tékka töskurnar inn og verið var að bíða eftir nýrri áhöfn frá Íslandi þar sem áhöfnin okkar fór beint upp á hótel í hvíld.

Klukkan sjö um kvöldið lögðum við af stað til Íslands og lentum loks í Keflavík um tíuleitið.

Og allur farangurinn varð eftir í Glasgow og hefur ekki enn skilað sér.

Til að kóróna allt gaf ég upp gemsanúmerið mitt til að hringja í þegar töskurnar koma. Gemsinn batteríislaus og hleðslutækið í töskunum!

En hey, ég er allavega komin heim :)

föstudagur, nóvember 03, 2006

Hallo-vin

Jaeja, tha eru thessar tvaer vikur i Quebec City ad verda bunar -sidasti vinnudagurinn i dag. Thetta er buid ad ganga mjog vel og allir sattir vid arangurinn held eg.

I gaer var Halloween party i vinnunni. Allir maettu i buningum og voru i theim allan daginn og svo var bjor og pizza eftir vinnu. Thad bjost vist enginn vid thvi ad vid Islendingarnir maettum i buningum svo vid voktum mikla lukku... myndir seinna :)

Okkur hefur reyndar ekki tekist ad heimsaekja gamla borgarhlutann enntha i dagsbirtu. Aetludum ad fara um helgina en tha var havadarok og larett rigning (ekta islenskt). Svo vid eyddum helginni innandyra (moll=innandyra).

Svo verdur lagt af stad heimleidis i fyrramalid. Vid thurfum ad taka thrjar flugvelar, fyrst til Montreal, svo Boston og thadan heim. Bleh!

Thad er nu samt alveg thess virdi, enda er thetta ordid agaett i bili og verdur gott ad koma heim. Ad bua a hotelherbergi i tvaer vikur og borda uti a hverju kvoldi er ekki eins skemmtilegt og thad gaeti kannski hljomad.

Nu langar mig bara i rumid mitt og fiskibollurnar hans pabba!

-Og audvitad othaegdar-englana mina :)

laugardagur, október 28, 2006

Melding

Migandi rigning i Quebec City i dag. Reyndar buid ad rigna mestallan timann sidan eg kom. Fengum tho thurrt a pobbaroltinu i gaer.

Forum a Iron Maiden tribute tonleika med mognudu bandi sem kallar sig Power Slaves. Their toku Maiden betur en Maiden sjalfir! ...eda thannig.

Dagurinn i dag var svo notadur i ad sjoppa og svo a ad skoda gamla borgarhlutann a morgun, sem ku vera fallegur med eindaemum.

Fjarfesti i 10.1 megapixla myndavel svo madur aetti ad geta hent inn nokkrum myndum thegar heim kemur.

Au Revoir!

þriðjudagur, október 24, 2006

Oui Oui

Sit núna á hótelherbergi í Quebec City. -Heimili mínu næstu tvær vikurnar. Með í för eru þrír aðrir Össuringar og verða þessir dagar notaðar til að læra samsetningu og virkni á nýju hné og flytja það svo með okkur heim. Sem sagt; reyna að troða eins mikilli kunnáttu í kollana og hægt er á tveimur vikum og halda henni þar þangað til við komum heim.

Spennó.

Fyrir þá sem ekki vita er Quebec frönskumælandi svæði... reyndar það franskasta sem finnst í Kanada. Franskan sem hér er töluð er þó ekki alveg eins og sú sem töluð er í Frakklandi. Hér er framburðurinn miklu sterkari og orðaforðinn líkari því sem talað var í Frakklandi í gamla daga. Þetta segir frakkinn í hópnum allavega, sem bæ ðe vei kemur sér vel að hafa með í för þar sem enskukunnátta íbúanna er misgóð.

Það var samt fyndið að heyra afgreiðslukonuna segja við hann í dag; "you have a French accent" þegar hann talaði frönsku við hana.

föstudagur, september 29, 2006

Jeppaferð

Búin að setja inn nokkrar random myndir úr jeppaskreppinu í 'albúm' hérna til hægri.

mánudagur, september 18, 2006

:)

Litli óþægðarengillinn minn er sjö ára í dag.

Í tilefni dagsins kemur nýjasta gullkornið, frá í gær:

Við fórum í réttir upp í Mosfellsdal og ég notaði tækifærið til að kenna borgarbarninu mínu eitt og annað sem viðkemur kindum.

Ég: "Sko, kindurnar með hornin eru hyrndar"
Júlía: "Jaaaá"
Ég: "Og þær sem hafa engin horn eru kollóttar"
Júlía: "Nú? Ekki sköllóttar?"

Einn daginn gef ég út bók.

sunnudagur, september 17, 2006

Jeppa skrepp

Fórum í alveg geggjaða jeppaferð með vinnunni í gær. Söfnuðumst í rúmlega tuttugu bíla og svo var keyrt Syðra-Fjallabak, komið niður Hungurfit austan við Tindfjallajökul og svo Fljótshlíðin til baka. Veðrið var algjörlega meiriháttar allan daginn, ferðin tók um tíu tíma og kvöldsólin fylgdi okkur síðasta spölinn heim.

Súkkan stóð sig ótrúlega vel og tók ár og sprænur léttilega, jafnt sem brattar sandbrekkur og skorninga. Við stelpurnar vorum auðvitað rígmontnar; á minnsta bílnum... og verandi stelpur innan um alla strákana á monster trukkunum sínum, sem sumir voru svo stórir að við hefðum næstum sloppið á milli hjólanna á þeim.

Frábær dagur sem lengir sumarið í annan endann.

Myndir á leiðinni.

mánudagur, september 04, 2006

Doh!

Þessa dagana stendur yfir nýtt prógramm hjá Júlíu, sem felst í því að hún sefur í sínu eigin rúmi en ekki uppí hjá mér. Þetta hefur bara gengið vel, en í gærkvöldi spurði hún mig hvort hún mætti sofa í mínu rúmi.

Ég: "Neeeeei, sofðu bara í þínu rúmi"
Júlía: "En af hverju?"
Ég: "Af því að þú tekur svo mikið pláss í rúminu mínu"
Júlía: "Mamma; hvort viltu pláss eða mig?"

Hún svaf uppí.

laugardagur, september 02, 2006

Draugar - humrar og haglabyssur

Gærkvöldið var hin mesta snilld. Ég fór með nokkrum vinnufélögum, ca. 20 manns á leirdúfuskytterí fyrir austan. Fengum tíu skot hvert og svo var dúndrað og puðrað og fagnað mikið þegar dúfurnar splundruðust. Það verða sumsé leirdúfur í jólamatinn á þessum bæ :)

Eftir skothríðina fórum við á draugasetrið á Stokkseyri, þar sem við hlustuðum á gamlar íslenskar draugasögur í viðeigandi umhverfi.

Síðan var haldið í humarveislu á 'Við fjöruborðið' og enginn svikinn af því. Átum þar til við stóðum á blístri og fylltum upp í holurnar með góðu hvítvíni.

Rúsínan í pylsuendanum var svo varðeldur niðri í fjöru í svartamyrkri. Það var blankalogn og hlýtt og auðvitað drukkið, dansað og sungið fram eftir nóttu.

Bara frábær ferð sem gleymist seint, og hefur hér með verið gerð að 'árlegum viðburði'.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Mynds

Myndir úr sumarfríinu í "Albúm" hérna til hægri. Fleiri væntanlegar þegar filman klárast.

P.s. ef einhver veit hvernig ég losna við þennan ljóta græna bakgrunn í albúminu, má sá hinn sami senda skiló!

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Ó-Menningarnótt

Kíkti í bæinn í gærkvöldi um áttaleitið. Þá strax var nokkur fjöldi fólks farinn að veltast um í rennisteininum af áfengisdrykkju.

Byrjaði í GuSt á Laugarvegi þar sem tríóið Moskító (sem er hluti hljómsveitarinnar Moskvitsj) var að spila. Ein af þeim var hún Sandra og tóku þær nokkur þjóðlög héðan og þaðan frá Evrópu, á Selló, blokkflautu og rafmagnsgítar. Bara snilld.

Eftir þetta rölti ég niður í portið hjá 'Við Tjörnina'. Þar áttu að spila Fræbblarnir og Megasukk. Ég kom mér fyrir á góðum stað og þar stóð ég og kvaldist við að hlusta á Fræbblana glamra og gelta í svona þrjú korter. Þegar því var lokið var tilkynnt að nú yrði gert þriggja kortera hlé áður en Megasukk kæmu fram.

Svo ég skakklappaðist hálf heyrnarlaus og orðin frekar tæp á geði, aftur út í bíl og skrölti heim.

Þegar þarna var komið sögu var klukkan orðin tíu og drukknu unglingarnir farnir að detta um barnavagnana hjá fjölskyldufólkinu.

Þetta var því frekar skrýtin samsetning og súrrealísk stemmning sem einkenndi þetta kvöld.

Efast um að ég nenni á næsta ári... nema kannski Megasukk spili á UNDAN.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Hlaupi hlaup

Hálfmaraþonið var lagt á 2:03:33. Get ekki grenjað yfir því, þó ég hafi ætlað að ná þessu undir tveimur tímum. Hef aldrei hlaupið svona langt áður svo núna veit maður nokkurn veginn hvar maður stendur.

Vorum reyndar með sterkan mótvind á ca. 10km kafla, og svo var steikjandi sól. En þetta var rosalega skemmtilegt hlaup og pottþétt ekki það síðasta sem ég tek þátt í. Nú hefur maður líka tíma til að bæta sko :)

Svo koma stelpurnar eldsnemma í fyrramálið. Og þá verður nú kátt í höllinni :D

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Leiðist þér?

Bla mælir með sýningunni "Ekki borða gulan snjó!" sem nú stendur yfir í Hinu Húsinu.

Stórefnilegir drengir þar á ferð og sýningin skemmtileg eftir því.

Hlakka til að fylgjast með framhaldinu...

föstudagur, ágúst 11, 2006

Skoðið þessa neðstu vel :)

Nokkrar flottar auglýsingar.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Betra seint en aldrei

Setti inn nokkrar random myndir af Hvannadalshnjúk í 'labbmyndir' hérna til hægri.

-Mig langar aftur :)

sunnudagur, ágúst 06, 2006


Komin heim úr vel heppnuðu ferðalagi. Byrjaði í Veiðivötnum og lágu 8 urriðar og tvær bleikjur í valnum.

Æfði mig með flugustöngina með ágætum árangri... ef frá eru talin skiptin þar sem línan vafðist um hálsinn á mér og flugan kræktist í bakkann fyrir aftan mig.

Eftir veiðitúrinn var flakkað um landið og tjaldað við Langasjó, á Skaftafelli, Skipalæk í Fellabæ, við Mývatn tvær nætur og svo síðustu nóttina í sjálfum Kántríbænum á Skagaströnd. -Og já, gengið á Sveinstind.

Fengum fínt veður allan túrinn, fyrir utan þoku og leiðindi síðustu tvo dagana. Frábær ferð, en mikið verður gott að sofa í rúmi eftir tíu nætur í tjaldi!

-Læt fylgja með mynd af "The Russian Hummer" sem ég rakst á inni í Laugum :)

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Munaðarlaus...

Stelpurnar fóru í gær til útlandsins og verða í næstum fjórar vikur. Það var ægilega erfitt að keyra burt frá flugvellinum, en eftir að ég heyrði frá þeim nýlentum og allt hafði gengið súper vel, er þetta bara alltílæ held ég. Ennþá :)

Svo er bara um að gera að halda sér bissí næstu vikurnar. Ætla að byrja á Veiðivötnum og sjá svo til. Er að spá í að fá mér svona til að spjalla við í bílnum á leiðinni.

Hér eru svo nokkrar skemmtilegar túristamyndir fyrir ykkur til að skemmta ykkur yfir á meðan.

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Hvað var ég nú að koma mér í?

Jæja, þá er geðsjúklingurinn ég búin að skrá mig í hálf-maraþon 19. ágúst. Byrjuð að æfa á fullu og veitir víst ekki af, sér í lagi þar sem sumarfríið mitt kemur þarna inní og verður líklega ekki hlaupið mikið þar.

Össur ætlar að borga 1000 kall á hvern kílómetra sem starfsmenn hlaupa, og rennur ágóðinn til Íþróttafélags fatlaðra.

Ég hef reyndar aldrei tekið þátt í svona löngu hlaupi áður, -bara 10 km. En maður er auðvitað alltaf að hlaupa svo þetta hlýtur að hafast.

Aðal markmiðið verður allavega að ná að klára þetta. Ef ég næ því svo undir tveimur tímum þá verð ég mjög sátt.

sunnudagur, júlí 09, 2006

Klikkhausar

Við stelpurnar (3/4 af okkur þ.e.) ákváðum að skella okkur í Þakgil um helgina. Er búin að heyra svo margt af þessum stað sem ég vildi sannreyna. Við vorum ekki sviknar, það er ofsalega fallegt þarna og leiðin af Þjóðvegi 1 þangað inneftir (um 14 km) er ævintýralega falleg. Fyrir þá sem ekki vita þá liggur þessi afleggjari rétt austan við Vík og er beygt til vinstri út af veginum. Ef beygt er til hægri og ekið í 14 km. þá endið þið úti í sjó. (Þetta er mjög mikilvæg vitneskja fyrir mig þar sem ég á erfitt með að þekkja í sundur hægri og vinstri :)

Við komum okkur vel fyrir með litla kúlutjaldið okkar, sem er nú bara svona svefntjald og rétt rúmar okkur þrjár. Svo var ég með lítið sóltjald sem ég setti upp við hliðina á tjaldinu og þar vorum við með borðið okkar, prímusinn og svoleiðis dótarí. Voða kósí og fínt hjá okkur. Við sváfum þarna um nóttina og á laugardeginum fórum við í bíltúr. Fórum í sund á Vík og þræddum svo alla vegaspotta sem við fundum þarna í nágrenninu.

Eftir frábæran dag komum við aftur inn í Þakgil, en þegar við komum að tjaldinu var búið að taka niður sóltjaldið og leggja það pent við hliðina á tjaldinu okkar. Og ofaní okkur var búið að tjalda einhverjum 4-5 hústjöldum og tjaldvögnum eða fellihýsum eða hvað þetta heitir alltsaman. Enginn var sjáanlegur í þessu nýuppsprottna tjaldþorpi svo við stelpurnar fórum bara að grilla kvöldmat og slappa af eftir daginn.

Eftir dálítinn tíma birtist fólk í tjaldbúðunum og kemur ein konan röltandi yfir til mín.

Kona: "Heyrðu, ég tók niður sóltjaldið hjá þér áðan"
Ég: "Já, ég tók eftir því"
Kona: "Já sko, það var ekki nóg pláss fyrir okkur og þú varst ekki hérna..."
Ég: "Það er fullt af lausum tjaldstæðum hérna í kring"
Kona: "Já, en við vildum vera hérna hjá okkar fólki"
Ég: "Já, það hefði nú verið allt í lagi að spyrja fyrst"
Kona: "Já, en það var enginn hérna!"

Þá benti ég henni á þá staðreynd að ég væri að borga jafn mikið fyrir tjaldstæðið undir litla kúlutjaldið mitt og hún fyrir hústjaldið sitt. Ég væri hérna í sumarfríi rétt eins og hún og hún hefði alveg getað beðið eftir mér. Hún tautaði einhverja afsökun og ég sagði að mér finndist þetta bara yfirgengileg frekja. Með það labbaði hún tautandi í burtu. Hún hafði greinilega átt von á því að ég segði: "Jájá, ekkert mál! Viltu ekki að ég færi tjaldið mitt líka hérna út í lækinn svo það sé nóg pláss fyrir ykkur?"

Ég tek það fram að ég var pollróleg þegar þessi samskipti okkar áttu sér stað. En við þetta máttum við una, það var búið að taka af okkur þessa litlu aðstöðu sem við höfðum komið okkur upp og við máttum matbúa og nærast í skjóli við bílinn.

Segið mér, hvað er í gangi í hausnum á svona fólki?!

þriðjudagur, júlí 04, 2006


Sumrinu hefur verið aflýst

Veðurguðirnir hafa komist að samkomulagi um það að sumrinu á Íslandi skuli aflýst þetta árið. Þetta ku stafa af ónógri þáttöku sólargeisla og stiga sem kennd eru við hita og oft mæld á celsius kvarða.

Ég hef aðeins eitt um þetta að segja:

"Better luck next year!"

þriðjudagur, júní 13, 2006

Uppgjör síðustu vikna

Geðveikin: Roger Waters tónleikarnir!
Vitleysan: Snjór í Esjunni
Böggið: Uppselt á Ísland-Svíþjóð
Pirrið: Vírussýking í auganu
Uppgötvunin: Það ER geislaspilari í bílnum (og maður þarf að opna frontinn til að finna hann)
Endurvakningin: Geisladiskurinn "Hrekkjusvínin"
Kúlið: Veiðileyfi í 23 vötnum á 5000 kjell
And-kúlið: Veðrið (er ekki hægt að kæra einhvern?)
And-til-hlakkið: Stelpurnar fara til Kanada í Júlí :(
Til-hlakkið: Stelpurnar fara til Kanada í Júlí ;)
Afsakið hlé

Vegna tæknilegra örðugleika hef ég ekkert getað bloggað undanfarið. Nettengingin fór í skrall og eftir þriggja sólarhringa trouble shooting með hjálparlið Hive á línunni, auk tveggja innlagna á tölvuspítala fyrrnefnds hjálparliðs, lítur út fyrir að garmurinn sé sýkt af einhvers konar vírus sem blockar tenginguna. Jú, ég er með vírusvörn en get ekki uppfært hana þar sem ég get ekki tengst netinu.

Nú blogga ég á nýjasta fjölskyldumeðliminn; HP laptop sem elsta heimasætan eignaðist um daginn. Er búin að kalla út læknavaktina fyrir þá gömlu, svo hún kemst vonandi í lag á næstu dögum.

sunnudagur, maí 21, 2006


Ja hérna!

Aldrei á ævinni hef ég skemmt mér eins vel yfir Júróvisjón! Það að nokkrir miðaldra þungarokkarar í skrímslabúningum hafi unnið, er ekkert nema snilld. Ég hef aldrei nennt að taka þátt í svona kosningu en Finnar fengu sko mitt atkvæði í ár :)

Mikið rosalega held ég að keppnin á næsta ári verði flott. Þetta var akkúrat það sem þurfti; að rífa þetta aðeins upp úr þessu útburðarvæli sem hefur einkennt keppnina undanfarið.

Lordi rokka!

mánudagur, maí 15, 2006


Nýr E-mobile

Það er með stolti sem ég leyfi mér að kynna nýjasta meðlim fjölskyldunnar. Sá er á fjórum hjólum (með drifi á þeim öllum) og gegnir nafninu Suzuki Vitara. Nú er bara spurning hvort sumarfríið sé nógu langt til að kanna alla þá staði sem hafa verið mér ófærir hingað til :)

(P.s. vantar einhvern ódýra notaða Corollu? ;)

mánudagur, maí 08, 2006


Success!

Lögðum af stað uppúr þrjú á föstudeginum, sem leið lá í austur. Stoppuðum í Vík og fengum okkur hamborgara með öllu tilheyrandi, svona til að hlaða fyrir næsta dag. Vorum komin í Svínafell um áttaleitið, þar sem við gistum í fjórum fjögurra manna skálum. Ég var í skála með þremur herramönnum, sem ákváðu þessa nótt að fara í hrotukeppni, sem varð mér til lítils svefns!

Vöknuðum klukkan fjögur á laugardagsmorgninum og fengum okkur kjarngóðan morgunmat, og keyrðum svo inn að Sandfelli þaðan sem labbið hófst rétt uppúr sex.

Veðrið var algjörlega meiriháttar í byrjun göngunnar, morgunsólin skein á jöklana og fjöllin í kring. En þegar ofar dró fór að þykkna upp og jöklaþokan tók völdin. Þannig var það alla leið upp á topp, en upp komumst við! Það var ekki leiðinlegt að standa loks á tindinum sem við erum búin að vera að stefna á síðustu mánuði.

Öðru hverju rofaði þó aðeins til og útsýnið var bara stórkostlegt. Þegar við vorum að príla niður Hnjúkinn byrjaði hann að rífa af sér og blasti við okkur í öllu sínu veldi. Og allt í einu leið manni eins og pínulitlu krækiberi, og fannst hreint ótrúlegt að hafa staðið uppi á þessu ísstáli nokkrum mínútum áður.

Ferðin niður gekk vel og við gengum niður úr þokunni á svipuðum stað og hún hafði byrjað. Þá tók við kvöldsólin sem baðaði Öræfin, og ekki var það nú ljótt að sjá :)

Kom niður um fjórtán tímum eftir að gangan hófst; níu tíma upp og fimm niður. Þar þurfti ég að hinkra eftir samferðamönnum mínum sem voru með mér í bíl, og var orðin ansi stíf og "hrolluð" þegar þeir skiluðu sér. Ég hlakkaði mikið til að komast í heita sturtu á Svínafelli, og þegar þangað kom dreif ég mig og náði í föt til skiptanna og inn í sturtu. Nema hvað, vatnið er gashitað og heita vatnið var búið! Þannig að ég fór hrollköld í kalda sturtu, auk þess sem allt inni í klefanum var mígandi blautt svo fötin mín blotnuðu líka.

Jæja, adrenalínið varð að duga til að ylja mér og smá rauðvín hjálpaði líka til. Svo voru grilluð þrjú lambalæri og runnu ljúflega niður í mannskapinn sem var búinn að nærast á samlokum og súkkulaði í heilan dag.

Fórum í háttinn klukkan að ganga eitt, rúmum tuttugu tímum eftir ræsið um morguninn. Og engar hrotur hefðu getað haldið fyrir mér vöku þessa nótt :)

Vöknuðum hress uppúr átta á sunnudeginum og héldum af stað í bæinn eftir morgunmat og frágang. Við þremenningarnir í mínum bíl komum við í sundlauginni á Vík og lögðumst í bleyti í heita pottinn, sem var notalegra en svo að ég ætli að reyna að lýsa því.

Komin heim um fjögurleitið með feitt bros á vör, sem fer örugglega ekki af á næstunni :)

mánudagur, maí 01, 2006


Countdown to Mt. Hvannadals Peak

Í dag var síðasta æfingin fyrir Hvannadalshnjúk, enda bara 5 dagar til stefnu.

Síðan við byrjuðum að æfa í febrúar hef ég gengið 6 sinnum á Esjuna, þar af þrisvar upp að Steini og þrisvar upp á Þverfellshorn. Auk þess einu sinni á Móskarðshnjúkana, Ármannsfellið, Botnssúlur og Vífilsfell.

Maður er allavega kominn í þokkalegt form og ætti því að geta fengið helling út úr næstu helgi, þ.e. ef við fáum gott veður. Nú veltur allt á því hvort það verður farið upp eða ekki (og já, það eru margir sem þurfa að hætta við eða snúa við á leiðinni vegna veðurs).

En við erum full bjartsýni (þar til annað kemur í ljós)!

(Sé ég krosslagða fingur?)

laugardagur, apríl 29, 2006


Lazy Town

Óvissuferðin var snilld. Við völdum okkur öll þema, ég valdi kvikmyndir og það var farið með okkur í upptökustúdíóið hjá Latabæ. Ekkert smá gaman að fá að skoða þetta og fræðast um þetta snilldar fyrirtæki. Við fengum að horfa á upptöku og það var vægast sagt fyndið að heyra Sigga sæta kalla: "Who's your Daddy?!" þegar upptakan tókst :D

Síðan var haldið í Mörkina þar sem beið okkar ítalskt hlaðborð. Þar var borðað og blaðrað, drukkið og dansað við tónlist frá skemmtilegri hljómsveit sem ég kann ekki að nefna.

Um ellefu var svo stefnan tekin á Players og dansað fram á nótt í brjálaðri stemmningu. Rölti heim um hálf fjögurleitið og svaf veeeeel og vandlega :)

Ljúft.

sunnudagur, apríl 23, 2006


Ekki samt Coca Cola

Gengum á Vífilsfell í morgun. Hef gengið á það einu sinni áður, þegar ég var held ég 17 ára. Fengum frekar skrautlegt veður, allt frá logni og sólskini upp í haglél og stífa suðvestanátt... sem var þó mun betra en rigningin sem hafði verið spáð. Vífilsfell er rosalega flott fjall, þó það sé ekkert sérstaklega hátt, tæpir 600m. Blanda af stórgrýti og móbergsklettum, og ekki spillti fyrir hvað það var fallega skreytt með snjó til að auka á contrastinn.

2 vikur í Hnjúkinn. Allir að krossa fingur svo við fáum gott veður!

fimmtudagur, apríl 20, 2006


Gleðilegt sumar!

Fannst við hæfi að byrja daginn á því að labba á Esjuna. Komum svo við á kaffihúsi á heimleiðinni og fengum okkur brauð og yl í kroppinn.

Fór með bílinn á verkstæði í fyrradag og hann var tilbúinn í gær. Búið að skipta um húdd og grill og laga smá dæld á stuðaranum og svo auðvitað sprauta allt saman. Hröð þjónusta þar!

Ég er nú samt farin að kíkja aðeins í kringum mig og spá í að skipta á meðan ég fæ ennþá eitthvað fyrir þennan. Tók góðan bílasölurúnt eftir hádegið og skoðaði helling. Er dálítið spennt fyrir Subaru Forester, enda er hann líklega næst því sem komist verður að vera jeppi, án þess að vera jeppi... ef þið skiljið mig. Svo fær hann rosalega góða dóma þegar kemur að bilunum... eða ekki bilunum.

Þeir eru nokkrir þarna úti á sölunum og einn eða tveir sem kæmu hugsanlega til greina. Ætla samt ekki að flana út í neitt en bíða aðeins og sjá hvort það kemur einn á góðum díl.

laugardagur, apríl 15, 2006


Meira labb

Lögðum af stað í morgun í fallegasta veðri sem hægt var að vonast eftir. Stefnan var tekin á Botnssúlur og var glampandi sól og blankalogn alla leiðina upp. Snjór yfir öllu og útsýnið hreint ótrúlegt.

Þegar við vorum komin uppundir kletta á Syðstusúlu skall á hríð. Við ákváðum að hinkra aðeins og sjá hvort myndi létta til, en svo fór að við þurftum að snúa við enda bratt og hált þarna uppi og ekkert vit að brölta um í svona veðri.

Úr þessu náðum við þó fimm klukkutíma labbi og fórum upp í 900 metra hæð sem er nú ekkert til að grenja yfir.

Gerum svo bara aðra atrennu, fyrr en seinna.

P.s. 3 vikur í Hnjúkinn!

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Melding

Skokkaði á Esjuna á sunnudagsmorgun. Náði þó ekki tímanum sem ég setti mér... skal ná honum næst.

Bíllinn fer á verkstæði á þriðjudaginn eftir páska. Fær nýtt húdd og grill, sem er ekki eins slæmt og það leit úr fyrir í fyrstu.

Á meðan krúsa ég um bæinn á Toyota Yaris dós í boði Tryggingamiðstöðvarinnar.

Framundan er kærkomið páskafrí sem verður notað í alvöru fjallaklifur, páskaeggjaát og afslöppun þar á milli.

Veriði góð.

laugardagur, apríl 08, 2006


Aaauuumingja E-Mobile

Stóð inni í eldhúsi áðan og var að malla kvöldmatinn þegar síminn hringdi. Í hinum enda línunnar hékk lögreglumaður og var að hringja utanaf bílastæði. Það var sumsé búið að bakka á bílinn minn, og það ekkert smá bakk!

Ég tók ekki einu sinni eftir því hvers konar bíll þetta var sem misþyrmdi E-Mobile svona. Nema hvað hann var STÓR og SVARTUR (og örugglega ljótur líka)!

Greyið Toyan er nú með krumpað húdd og þarf að fara á spítala :/

Jæja, sjitt happens og ég er bara fegin að gaurinn lét vita, en keyrði ekki bara í burtu. Hann hefði hæglega getað komist upp með það, enda sá ekki á hans bíl.

sunnudagur, apríl 02, 2006

Fjúk

Löbbuðum á Esjuna í morgun í brjálaðri Norðanátt. Vorum með vindinn í fangið alla leiðina upp og var varla stætt á köflum. Fórum bara upp að Steini, enda óvíst að ég sæti hérna núna ef við hefðum lagt í klettana í þessu veðri :)

Setti inn nokkrar myndir.

Ef einhver getur bent mér á gott myndakerfi á netinu þá yrði ég ROSAGLÖÐ. Þær tapa svo gæðum á þessu msn-kerfi. Prófaði flickr í dag, en kláraði upload limmitið á nokkrum myndum (og var auðvitað strax boðið að upgrate-a fyrir aðeins $24.95!)

Anyone?

laugardagur, apríl 01, 2006


Bloggleti

Selma fermdist um síðustu helgi og gekk allt vel og allir sáttir og ánægðir með athöfnina, veisluna og myndatökuna. Mikið er ég samt fegin að hafa klárað þetta allt á einum degi. Hef nefnilega heyrt af fólki sem var með þetta þrennt allt sinnhvern daginn, með þremur fermingargreiðslum, fataskiptum, meiköppi og tilheyrandi. Nej tak.

Setti inn myndir á síðuna hennar Júlíu.

Labbaði ekkert um síðustu helgi, enda allir uppteknir við að halda veislur eða mæta í annara manna veislur. Er að spá í að skoða Esjuna í fyrramálið. Svo verður tekið vel á því um páskana.

5 vikur í Hvannadalshnjúk! Vona bara að veðrið klikki ekki.

laugardagur, mars 18, 2006

Labb

Labbið heldur áfram og í morgun varð Ármannsfellið fyrir valinu. Það er sumsé staðsett á Þingvöllum og telur eitthvað yfir 700 metra af hæsta punkti.

Reyndar bailuðu báðir félagar mínir svo ég fékk að troða mér inn á hinn hópinn sem er líka að æfa sig fyrir sömu ferð.

Við lögðum af stað í svartaþoku, bjartsýn á að henni myndi nú létta. Þegar við komum heim fimm tímum seinna var enn svartaþoka og auk þess farið að rigna.

En labbið var fínt, við fórum upp á topp (auðvitað) og héldum svo áfram og niður hinum megin. Þurftum svo auðvitað að labba hálfan hring í kringum fjallið til að komast að bílnum :)

miðvikudagur, mars 15, 2006


What's happenin'?

Hvað er að gerast?
-ROGER WATERS AÐ GERAST!

Hvar þá?
-Í EGILSHÖLL!

Hvenær?
-12. JÚNÍ!

Og hverjir mæta?
-ÉG!! (...og Erna líka smá)

Újeeeee!

laugardagur, mars 11, 2006


Einn lítill, tveir litlir, þrír litlir hnjúkar...

Vaknaði til að fara að pissa klukkan eitt í nótt. Varð litið út um gluggann og sá mér til hrellingar að snjó kyngdi niður eins og honum væri borgað fyrir það.

Við labbararnir létum það ekki á okkur fá og héldum af stað klukkan átta í morgun, með stefnuna á Móskarðshnjúkana.

Þetta var fín æfing, allt snævi þakið og útsýnið frábært (þennan stutta tíma sem þokunni létti sko).

Komin heim um hádegið, vel sátt og hlakka til næsta laugar-labbdags :)

Myndir

sunnudagur, mars 05, 2006


Hér sé stuð

Árshátíðin var algjörlega frábær. Maturinn var æði, allir réttirnir sem einn.

Felix Bergsson stóð sig vel sem veislustjóri og svo kom Jóhannes eftirherma og allir grétu úr hlátri.

Þá var komið að upphitunarbandinu - Hundur í óskilum. Af hverju hef ég aldrei heyrt af þessu bandi?! Þessir gaurar eru ótrúlegir! Það lá allur salurinn í gólfinu og fólki var orðið alveg sama hvort Stuðmenn kæmu eða ekki.

Jæja, þeir komu nú samt og voru auðvitað frábærir líka. Andrea Gylfa söng með þeim, sem kom flott út.

Kom heim klukkan fimm og var vöknuð klukkan átta. Þrátt fyrir að hafa byrjað gærdaginn á Esjulabbi og endað hann á dansgólfinu. Maður er náttúrulega ekki alveg eðlilegur.

sunnudagur, febrúar 26, 2006


Labbi-labb

Gekk á Esjuna í gærmorgun með tveimur vinnufélögum. Veðrið var algjörlega meiriháttar og við náðum upp að vörðu á klukkutíma og korteri.

Við erum að plana labb á Hvannadalshnjúk í maí, ásamt fleiri Össuringum, svo nú á að byrja að æfa sig. Kannski við náum þessu á klukkutíma næsta laugardag.

Myndir hér.

(Reyndar frekar óskýrar, en whattheheck... sönnunargögn engu að síður :)

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

*hugs*

Húsfluga suðar inni á baðherbergi.
Krókusarnir eru byrjaðir að springa út fyrir utan gluggann.
Ég mætti feitum ánamaðki á gangstétt í dag.
Það var 9 stiga hiti klukkan sjö í morgun.

Og samt stendur klárlega 21. febrúar hér fyrir ofan.

?

sunnudagur, febrúar 19, 2006


Til hamingju Rósa og Biggi!!

Með litla krúttrassinn ykkar! Fyrr má nú líkjast mömmu sinni, en vá!

Hún er eins og klónuð :)

sunnudagur, febrúar 05, 2006

Má ég eig'ann?

Fékk símtal frá Ernu í gærkveldi þar sem hún var úti með vinkonu sinni:

"Mamma, hverjar eru reglurnar með ketti í húsinu hjá okkur?"

Ó, nei! Hugsaði ég og útskýrði að það væri bannað að hafa ketti í fjölbýlishúsum nema fá samþykki allra íbúa og bla bla.

Erna: "Sko, við fundum nefnilega kettling... hann er heimilislaus, grútskítugur og blautur og er búinn að elta okkur heillengi".

Ég spurði hvernig hún vissi að hann væri heimilislaus.

"Bara... sko hann er ekki með neina ól og hann er kaldur og blautur."

Eftir smá samtal sagði ég henni að koma með kisa heim, ég skyldi kíkja á hann. Ekki það að við hefðum getað haldið honum en ef lýsingin var rétt þá mátti hlýja greyinu og fara svo með hann í Kattholt.

Jæja. Smá stund líður. Svo koma Erna og vinkonan heim. Erna heldur á gömlum, feitum fressketti sem greinilega hafði 'hreinkast' eitthvað á leiðinni en var þó dálítið blautur... enda rigning úti. Af atferlinu að dæma átti hann örugglega fínt heimili, var kelinn og vanur að láta hnoðast með sig.

Svo greyið fékk túnfisk og handklæðaþurrkun, fyrst hann var nú kominn innfyrir, og var svo hleypt út, þar sem hann trítlaði saddur heim á leið.

Til hamingju Ísland!

Ég verð að viðurkenna að ég þoldi ekki karakterinn fyrst þegar hún var að koma í ljós á skjánum. En smám saman fór maður að fatta þetta og nú finnst mér hún ekkert nema snilld!

Áfram Silvía Nótt, Hommi og Nammi!!!

:D

miðvikudagur, febrúar 01, 2006


Lasarus

Ég er heima með Svarthöfða í dag. Allavega hljómar hún eins og Svarthöfði þegar hún andar greyið. Eða svona cross-breed milli hans og snigils, hún er svo kvefuð að það er svona slímrönd á eftir henni hvar sem hún fer.

Var þetta ekki falleg lýsing hjá mér?

Ég nota öll ráð sem ég kann til að láta henni batna, af tómri sjálfselsku þar sem ég veit fátt eins leiðinlegt og að vera föst heima yfir veikum börnum.

(-And the "Mother of the Year Award goes to...")

laugardagur, janúar 28, 2006

Og kallinn prumpar svooooona

Ókey, ég er búin að fatta þetta með Júróvisjón. Það er verið að grínast í okkur, þetta er bara brandari. -Framhald á áramótaskaupinu, þetta er svo augljóst núna.

Sáuð þið til dæmis þessa Fanneyju sem kom alla leið frá útlandinu til að breima um hvað hún væri hamingjusöm. Þetta var auðvitað engin Fanney, heldur Bjögvin Franz Gíslason! Spáið í það næst þegar þið sjáið þetta andlit... alveg eins og Björgvin í skaupinu að leika Birgittu Haukdal.

Hitt er svo ennþá augljósara. Ég meina, Geir Ólafsson? HAHAHAHAHAHA! Æ, mér líður svo miklu betur núna að vita að þetta var alltsaman bara djók.

Svo er bara að senda Doktor Gunna í keppnina með Prumpulagið. Þá er þetta fullkomnað.

föstudagur, janúar 27, 2006

Enn eitt klukkið

Ásdís klukkaði mig, so here goes:


Fjögur störf sem ég hef unnið við
Humarvinnsla á Höfn
Umönnun á Landspítalanum í Kópavogi
Klippari á Bangz Hair and Esthetics í Halifax
Veskjatilbúari hjá Atson - Leðuriðjunni

Fjórar myndir sem ég gæti horft á aftur og aftur
Lord of The Rings serían
The Nightmare before Christmas
Charlie and the Chocolate Factory
The Lion King

Fjórir staðir sem ég hef búið á
Halifax í Kanada
2 staðir í vesturbæ Kópavogs
3 staðir í austurbæ Kópavogs

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla að horfa á
My name is Earl
Rescue Me
Scrubs
Malcom in the Middle


Fjórir staðir sem ég hef ferðast til (í fríi)
London
Amsterdam
Barcelona
New York

Fjórar vefsíður sem ég fer inn á daglega
www.mbl.is
www.visir.is
www.b2.is
blogghringurinn

Fjórar uppáhaldsmatartegundir
Nautasteik, medium rare
Sushi
Fiskibollurnar hans pabba
Góð pizza

Fjórir CD sem ég gæti ekki verið án
(Þetta er næstum því ómögulegt, þeir eru svo margir svo ég nefni bara nokkra random)
Parachutes - Coldplay
Hopes and Fears - Keane
The Long Road - Nickelback
Songs from the last Century - George Michael

Fjórir staðir sem ég mundi frekar vilja vera á
Það er enginn staður sem ég vildi frekar vera á, en hellingur sem mig langar til að heimsækja:
Ástralía
Mexico
Kína
Egyptaland


Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka
Gurrý
Ragnar Nói
Selma
Jóhanna

þriðjudagur, janúar 24, 2006

NEI! NEI! NEI!

Jæja, hver sá Júróvisjon á laugardaginn? Þ.e.a.s. þennan fjórðung laga sem keppa í undankeppninni um hver fær að fara í keppnina fyrir Íslands hönd.

Ó MÆ GOD! -hvað þetta voru ömurleg... fyrirgefiði - ÖMURLEG lög! Eina lagið sem var ókey var þetta með henni Regínu Ósk, eða hvað hún heitir, Idol-stjörnu. Tónarnir sem hún söng voru ómannlegir, og lagið var bara flott.

Öll hin... og þá meina ég ÖLL HIN LÖGIN MEÐ TÖLU hljómuðu eins og þau væru frá dögum 'Gleðibankans'.

Ég trúi varla að tónlistarfólk í dag sendi svona viðurstyggð frá sér. Þetta eru lögin sem láta útvarpstækin fremja sjálfsmorð!

Bjakk! *ptuiii* *ptuiii*

miðvikudagur, janúar 18, 2006


Sýnishorn úr Orðabók Hlíðarhjallagengisins

Furuhnetur - Furðuhnetur
Hrökkbrauð - Rokkbrauð
Nautakjöt - Nautnakjöt
Folaldahakk - Foreldrahakk
Marmelaði - Remúlaði
Rabarbarasulta - Barbapapasulta
Malakoff - Landakort
Hakk og Spaghettý - Spakk og Haghettý

Rokkbrauð með remúlaði er einmitt í miklu uppáhaldi hjá Júlíu þessa dagana :)

föstudagur, janúar 13, 2006

Borðar þú skötu?

- Var spurning forvitnispúkans fyrir jólin og svörin eftirfarandi:

Jahá! 38%
Nei, bleeeh! 23%
Hef aldrei smakkað hana 38%

Ég hlakkaði sjálf voða mikið til að fá að spreyta mig á skötuáti á Þorláksmessu, en svo var bara hangikjöt í matinn í vinnunni. En ég er staðráðin í að smakka hana næst, hvar sem það verður! (...og hef þá árið til að undirbúa mig)

Nýr forvitnispúki er á þjóðlegum nótum í þetta sinn, til heiðurs Þorranum sem byrjar 20. janúar.
Allt er vænt sem vel er grænt

Er samt ekki alveg viss um að ég fíli þetta nýja template. Af hverju er svona lítið úrval þarna hjá þeim bloggerum? Ætla að reyna að fikta eitthvað í þessu við tækifæri.

Tölvan virkar svona stundum. Þ.e.a.s. skjárinn... kveikir á sér þegar hann nennir og þar sem tölvan er innbyggð er víst ekki hægt að fá nýjan skjá.

Af hverju er ég ekki í vinnunni klukkan 8:20 á föstudagsmorgni? -HAFIÐI LITIÐ ÚT? Bíllinn fastur hér fyrir utan og ég bíð eftir Hlölla bró að koma og draga mig nógu langt til að ég komist í vinnuna.

Gaman aððessu.

mánudagur, janúar 09, 2006

Den er död

Tölvan dó. Það verður því eitthvað fátæklegt bloggið á næstunni. Annars kom Júlía með umslag til mín um helgina með sjö krónum í, til að hjálpa mér að kaupa nýja tölvu svo vonandi þurfum við ekki að vera lengi tölvulausar ;)

Læt í mér heyra þegar þar að kemur, veriði stillt á meðan.

sunnudagur, janúar 01, 2006



Gleðilegt nýtt ár!

Megi það verða ykkur gott og farsælt, fengsælt, happadrjúgt, hamingjusamt, ástríkt, hvetjandi, auðgandi, eflandi, gefandi...

...og bara alveg hreint frábært!