föstudagur, júlí 12, 2002

Í dag er kominn 12. júlí sem þýðir hvað...? Jújú, 364 dagar í 30! *gulp* Eiginmaðurinn yfirgaf mig daginn fyrir afmælið og stakk af til Íslands. Hann verður semsagt í viku og ætlar svo að taka Mæju systur sína með til baka til að passa Ernu og Selmu á daginn á meðan við erum að vinna/skólast. Afmælisdagurinn var annars ágætur (engar nýjar hrukkur) stelpurnar í skólanum voru svo sætar við mig, ein bakaði muffin og svo buðu þær mér út í hádegismat. Svo þegar ég kom heim þá voru hinar stelpurnar (mínar) búnar að dúka borð með Spiderman dúk og pappadiskum og servíettum. Svo við borðuðum pæ og ís og rjóma af Spidermandiskum. Og auðvitað fékk ég pakka.
Annars er lítið að frétta nema Selma er komin með gleraugu og þar með er næst síðasta vígið fallið (bara Júlía eftir). Það var svosem viðbúið, enda gleraugnaglámar á báðum endum. En hún er allavega hæstánægð með nýju gleraugun.
Það er spáð sól um helgina svo við förum örugglega á ströndina, og svo verð ég með grill fyrir stelpurnar úr skólanum annað kvöld og ormarnir verða í pössun á meðan. Svo ég segi bara góða helgi á meðan.