sunnudagur, mars 23, 2008

Gleðilega páska!

Við stelpurnar höfum verið í góðu yfirlæti síðustu daga við að læra, leika og spila tölvuleiki (ég tók að mér lærdóminn). Þar sem við sáum fram á rólega daga ákváðum við að byrgja okkur upp af sýnishornum af hinum ýmsu páskaeggjum, sem svo voru smjöttuð yfir hátíðirnar. Við keyptum semsagt lakkrísegg, rísegg, Kólusegg og egg úr hvítu súkkulaði. Við vorum sammála um það að Kóluseggið ætti vinninginn, bæði í bragðgæðum og innihaldi.

Í þessum orðum skrifuðum er svo lambalærið að eldast í ofninum og fer að koma tími á að henda saman kartöflusalatinu. Eins gott að ég er nýbúin að endurnýja kortið í ræktinni...!

Annars prófaði ég að fasta á föstudaginn langa. Ekki af neinum sérstökum trúarhita, heldur meira af forvitni, en þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég borða ekkert í heilan sólarhring. Kannski maður prófi að láta krossfesta sig á næsta ári... nei, ég segi svona.

Hafið það gott elskurnar, þið fáu sem ennþá þvælist hingað inn.

*knús og kærleikur*

fimmtudagur, mars 20, 2008


Páskafrí

Jei! Þá fær maður loksins tíma til að slappa af... right?

Um leið og ég er búin að klára verkefnin sem eftir eru áður en próflestrarfríið skellur á. Væri kannski ekki svo slæmt ef ég væri ekki svona einstaklega ómótíveruð og þjökuð af fullkomnum skorti á einbeitingu og já, bara almennri nennu. Ég get ekki beðið eftir vorinu og sumrinu með öllum ferðalögunum sem ég ætla í, öllum fjöllunum sem ég ætla að labba á og öllum mótorhjólatúrunum. Ég þjáist semsagt af ótímabæru vori í sálinni, nú þegar ennþá eru tveir mánuðir til prófloka.

Það er því ljóst að næstu vikur verða keyrðar á þeim sjálfsaga sem ég vona að leynist ennþá þarna einhvers staðar, og vonandi verður þetta allt þess virði þegar það er búið.

En vá, hvað ég hlakka til.