þriðjudagur, júní 29, 2004

Og kallinn prumpar svooooona...

Um daginn minntist ég á sjúkrahúsnærbuxur sem lífgað var uppá með litum og bróderíngum. Ekkert slær þó út því sem ég rakst á í dag.

Hér er hægt að kaupa nærbuxur sem eyða prumpulykt! Prumpið fer í gegnum filter sem inniheldur virkt kolefni og kemur svo lyktarlaust út hinum megin. Nú geta semsagt allir prumpað skammarlaust, án þess að eiga á hættu að fólk gretti sig og taki fyrir nefið. Brókin kostar frá 19.95 dollurum (plús skatt) og endist í u.þ.b. eitt ár. Filterinn er hægt að skipta um (í dýrari gerðunum) og endist hver filter í nokkrar vikur upp í nokkra mánuði, allt eftir því hversu mikið mæðir á þeim.

Skyldi einhver vera kominn með umboð fyrir þetta á Íslandi?

(Þessi mynd var á síðunni hjá þeim. Sjáiði bara hvað maðurinn er áhyggjulaus með bókina sína, á meðan konan sefur vært við hlið hans! Það er alveg ljóst að þetta mun breyta lífum okkar allra.)



Allt annad lif! Posted by Hello

laugardagur, júní 26, 2004

Til hamingju með kosningadaginn!

Ég vona að allir hafi farið í sparifötin í morgun og skundað á kjörstað til að leggja sitt af mörkum til lýðræðisins. Ég man í gamla daga (þegar ég var lítil sko) og gamla settið fór prúðbúið á kjörstað, pabbi í pressuðum jakkafötum með bindið á sínum stað og mamma í pilsdragt á háhæla skóm, angandi af ilmvatninu sem annars var aðeins notað á jólunum eða ef einhver dó. Þá þekktist ekki að menn ættu fleiri en ein, eða í mesta lagi tvenn jakkaföt svo gamli fór og kaus forseta í sömu fötunum, örugglega fimm sinnum í röð.

Mér fannst annars leiðinlegt að að engin kona skyldi bjóða sig fram í þetta sinn. Ekki það að maður myndi kjósa konu vegna kynsins en auðvitað er alltaf gaman að sjá konur framarlega í pólítík, sem annars staðar.

Í óbeinu framhaldi fór ég að spá svolítið í þetta með makana, og hversu miklu eða litlu máli maki forsetans skipti. Fólk er jú að kjósa mann/konu til embættisins, en skyldi makinn hafa eitthvert vægi í vali fólks? Ætli einhver hafi ekki kosið þennan eða hinn af því hann þoldi ekki makann? Eða gefið einhverjum atkvæði sitt af því makinn var í uppáhaldi.

Svo ég hélt áfram að spekúlera og fór að velta fyrir mér hinum fullkomnu forsetahjónum. Ég held barasta að ég hafi fundið þau, og þó þau séu ekki par þá veit maður aldrei. Bæði eru svona 'global' fólk sem ætlar sér stóra hluti í heiminum og lætur ekki nægja að láta verk sín tala bara á Íslandi. Eitt er víst, að hjónasvipurinn leynir sér ekki. Haukfránt augnarráð og brosið svo geislandi að Colgate má bara fara að pakka saman...



Hver stenst thessi augu? Posted by Hello

fimmtudagur, júní 17, 2004

Hver er þessi undurfagra kona?

Ég á tvífara! Þessu komst ég að á skoðunarferð minni um nýja vísis-vefinn. Þessi snót ku hafa keypt heilan lager af sjúkrahúsnærbuxum, og gefið þeim nýtt gildi ef ég skil fréttina rétt. Brækurnar eru nokkurs konar andsvar við rassareimabuxunum (G-string), svo nú geta allir sportað bleikum, bróderuðum nærbrókum og híað á G-strengina. Það held ég amma yrði stolt!


Er thad bara harid eda leynist eitthvad meira ad baki... Posted by Hello

laugardagur, júní 12, 2004

Pirr dagsins í boði Rainbow Trout

Í dag var hið fínasta veiðiveður, bjart og smá vindur en ekki mikil sól eða hiti. Svo við ákváðum að fara í bíltúr og tókum auðvitað stangirnar með. Jæja, við stoppum við á rétt hjá Mosquitoboit Harbour, fallegur staður þar sem áin rennur undan brú og breiðir úr sér. Nema hvað, þarna vorum við í rúma tvo tíma, og áin var bókstaflega FULL af regnbogasilungi! Þeir syntu nánast yfir tærnar á okkur, stukku allt um kring og maður gat fylgst með heilu torfunum upp við bakkana. Þetta var auðvitað rosalega gaman og hefði örugglega verið enn skemmtilegra ef EITTHVAÐ HEFÐI BITIÐ Á. Ég byrjaði með spún, þá flugu og svo aftur spún þar til hann týndist (húkkaði grjót). Aðrir voru með flugur og öngla með maðki eða maísbaunum, sem landinn ku veiða á hérna (!). Um tíma sat ég uppi á brúnni og horfði niður á torfuna, danglaði flugunni niður í vatnið og lét hana tipla um yfirborðið, en þessir snobbfiskar voru greinilega ekki á þeim buxunum að láta krækja í sig.

(Reyndar sýndist mér sem þeir væru meira horny en svangir, af atferlinu að dæma :)

En við látum ekki bugast eftir þessa reynslu nema síður sé. Erum strax búin að plana annan túr um næstu helgi á annan stað. Sjáum til hvort sú ferð skilar einhverju...


Tharna eru their, bolvadir... Posted by Hello

fimmtudagur, júní 10, 2004

Furðufiskar

Á mánudaginn var 6 stiga hiti (eða kuldi öllu heldur). Í gær var 32 (já, þrjátíuogtveggja) stiga hiti og rakamolla! Ég býst við að sumarið sé komið, og það all harkalega. Annars er best að vera ekki of bjartsýnn, það er búið að spá lélegu sumri hjá okkur :(

Annars vorum við að kaupa veiðileyfi og planið er að fara að veiða um helgina. Það ætti að verða fróðlegt, hér fæst ekkert nema vatnakarfar og leirgeddur svo það er spurning hvort maður þori að landa ef eitthvað bítur á. Annars á víst að vera hægt að krækja í sjóbirting á þessum árstíma, ef maður fer í árnar.

Allavega, ég pósta myndir eftir helgina ef eitthvað skrýtið veiðist :)