laugardagur, apríl 26, 2008

Rigningu takk?

Það ættu að vera lög gegn próflestri á svona góðviðrisdögum. Með háum sektum (á kennarana auðvitað). Spurning með að stilla sér upp á einhverjum gatnamótunum og mótmæla.

Hjólið er búið að standa úti í allan dag, baðað sólskini og ekki laust við að ég sé með samviskubit fyrir vanræksluna :/

En, þetta verður vonandi fljótt að líða og þegar prófin eru búin skal sko verða fjör! Ég er meira að segja farin að undirbúa, búin að skrá mig í Útivist og stefni á Lómagnúp í lok maí.

Kannski vinn ég í lottóinu og get tekið Hrefnu með mér.

fimmtudagur, apríl 24, 2008

Gleðilegt sumar...

og takk fyrir þennan fína vetur. Ég ákvað að heilsa því með fjallgöngu og þrammaði á Syðstu Súlu með Ferðafélaginu. Syðsta Súla er hæst Botnssúlnanna sem tróna milli Hvalfjarðarbotns og Þingvalla og telur 1095 metra. Ég var reyndar búin að reyna við hana fyrir tveimur árum en þá þurftum við að snúa við í klettunum vegna hálku. Í þetta sinn voru mannbroddar og ísaxir með í för, en svo var bara flennifæri svo við þurftum ekki á slíku að halda. Rútan komst reyndar ekki eins langt og hún ætlaði, sem lengdi gönguna um þrjá tíma, þannig að í allt tók labbið okkur sjö klukkutíma. En veðrið var fínt og mórallinn líka og ég kát með að vera búin að klára það sem ég byrjaði á í hitteðfyrra. Reyndar höfðum við ætlað að labba yfir og niður í Hvalfjörðinn, en fararstjórinn treysti ekki blautum snjóbrekkunum hinum megin svo við fórum sömu leið til baka. Þannig að ég er kannski ekki alveg búin... :)

Góð byrjun á sumrinu allavega. Væri nú ekki verra ef það yrði eitthvað í líkingu við fyrrasumar...

föstudagur, apríl 11, 2008

My loony bun is fine Benny Lava!




Priceless.

miðvikudagur, apríl 09, 2008

Loksins! Loksins!

Eftir að hafa hangið í hálft ár á sama stað á biðlista, er ég komin með íbúð á Stúdentagörðunum :)
Fæ afhent 3. júní sem gæti ekki verið betri tími, prófin búin og allt sumarið framundan. Stelpurnar fá aðlögunartíma áður en þær byrja í nýjum skóla og ég losna við umferðarteppu tvisvar á dag og slepp við að selja hitt nýrað til að eiga fyrir bensíni. Spara að auki skrilljónir í leigu og fæ íbúð sem er ekki að detta í sundur.

Jei!

miðvikudagur, apríl 02, 2008

Hallærisverðlaunin...

fær samgönguráðherra Sturla Böðvarsson fyrir taktlaust komment á Austurvelli í gær. Þar afhentu mótmælendur honum áskorun, ásamt bíldekki til áminningar með þeim orðum að það væri ekki hægt að stinga bíldekkinu ofan í skúffu.

Sturla svaraði að bragði: "Ja, ég á stóra skúffu".

*Púúúúú*