fimmtudagur, apríl 24, 2008

Gleðilegt sumar...

og takk fyrir þennan fína vetur. Ég ákvað að heilsa því með fjallgöngu og þrammaði á Syðstu Súlu með Ferðafélaginu. Syðsta Súla er hæst Botnssúlnanna sem tróna milli Hvalfjarðarbotns og Þingvalla og telur 1095 metra. Ég var reyndar búin að reyna við hana fyrir tveimur árum en þá þurftum við að snúa við í klettunum vegna hálku. Í þetta sinn voru mannbroddar og ísaxir með í för, en svo var bara flennifæri svo við þurftum ekki á slíku að halda. Rútan komst reyndar ekki eins langt og hún ætlaði, sem lengdi gönguna um þrjá tíma, þannig að í allt tók labbið okkur sjö klukkutíma. En veðrið var fínt og mórallinn líka og ég kát með að vera búin að klára það sem ég byrjaði á í hitteðfyrra. Reyndar höfðum við ætlað að labba yfir og niður í Hvalfjörðinn, en fararstjórinn treysti ekki blautum snjóbrekkunum hinum megin svo við fórum sömu leið til baka. Þannig að ég er kannski ekki alveg búin... :)

Góð byrjun á sumrinu allavega. Væri nú ekki verra ef það yrði eitthvað í líkingu við fyrrasumar...

Engin ummæli: