sunnudagur, október 26, 2003

Og ég sem hélt að símasölufólk væri slæmt

Með mér vinnur maður að nafni Paul. Paul er allsérstakur maður í marga staði, mikið til vegna þess að hann hefur í áratugi unnið með konum eingöngu, auk þess að eiga eina slíka, þrjár dætur og fimm dótturdætur. Ég meina, karlmenn eru og verða karlmenn en þegar í þessar aðstæður er komið hlýtur eitthvað undan að láta erþakki?

Paul er semsagt með afbrigðum skrafhreifinn og getur auðveldlega blaðrað stanslaust frá morgni til kvölds. Þetta væri svosem þolanlegt ef aðal umræðuefni hans væri ekki veðrið. KOMMONN! Hver nennir að blaðra endalaust um eins óstabílan og boring hlut og veðrið?! Paul does.

Nema hvað, einn hlutur af starfi okkar er að selja fólki sem rambar inn á stofuna alls kyns vörur; sjampó, froðu og allt það. Ferlið er nokkurn vegin svona; kúnni labbar inn og fer að skoða eitthvað. Maður bíður smá stund og víkur sér svo að kúnnanum og spyr hvort maður geti aðstoðað hann eitthvað. Ef hann segir nei, víkur maður sér undan, en passar að vera í færi.

Paul gerir þetta svona. Hann stendur í felum á bak við borð og bíður átekta. Þegar kúnni nálgast sjoppuna byrjar hann að tvístíga og setur sig í stellingar, ekki ósvipað og þegar köttur sér feitan fugl á grein. Um leið og kúnninn setur fótinn inn fyrir dyrnar, stekkur Paul fram og hremmir kúnnan. Næstu mínútur fylgist maður með örvæntingarfullri baráttu kúnnans við að losa sig úr greipum Pauls, sem lætur móðan mása um allar þessar einstöku vörur og hvað þær geri nú og hvað þær séu á ótrúlega góðu verði og hvort þú hafir nú prófað þetta eða hitt og hvað veðrið sé nú frábært í dag. Sumir eru sterkir og ná að losa sig og hlaupa eins og fætur toga án þess að líta nokkurn tímann til baka, en aðrir sjá enga aðra leið úr prísundinni en að kaupa eitthvað.

Þið hefðuð átt að sjá konugreyið sem var á tveimur hækjum að reyna að flýja karlinn. Hann þvældist alltaf fyrir hækjunum svo hún komst hvergi, og mátti greina óttaslegið augnaráð hennar þar sem hún reyndi í örvæntingu að finna útgönguleið.

föstudagur, október 24, 2003

Þar sem hinn helmingurinn er staddur á Íslandi, sótti ég Júlíu í leikskólann í gær og fór með hana í vinnuna til að klára vaktina mína. Þetta gekk bara vel, Júlía skemmti sér og öðrum og fræddi samstarfsfólk mitt um ýmislegt, meðal annars þá staðreynd að ljón yrðu að grasi þegar þau deyja (Lion King var sko að koma út á DVD :)

Nema hvað, ég var að klippa þegar frökenin kemur fram með buxurnar á hælunum og segir; mamma, ég þarf hjálp... viltu girða mig? Mín hafði semsagt brugðið sér á klósettið og náð að toga niður um sig, en ekki upp aftur. Ykkur þykir þetta kannski ekki mikið mál, fjögurra ára rass er jú bara krúttlegur ekki satt?! Nema hvað, hér í landi er fólk afspyrnu miklar teprur og má því nánast líkja þessu við að ég hefði sjálf birst með buxurnar á hælunum!

...ég held ég ljúgi ekki þegar ég segi að ég hafi aldrei áður verið eins fljót að girða.

miðvikudagur, október 22, 2003

Óli píka!

Þegar andleysið ræður ríkjum er ekkert annað að gera en láta aðra bloggara um skemmtunina. Hér má lesa frábæra sögu frá honum Rökkva.

miðvikudagur, október 15, 2003

What the...?!

Á flakki mínu um veraldarvefinn hef ég nú rekist á ýmislegt misjafnt. En þetta er ég bara ekki að fatta! Ef einhver hefur skýringu á þessari undarlegu myndasyrpu þá vinsamlegast fræðið mig!

sunnudagur, október 12, 2003

Góðan dæinn!

Eitt af því sem flest íslensk börn í útlöndum eiga sameiginlegt er að vera tvítyngd (furðulegt orð!). Jæja, Júlía setur nýja merkingu í þetta orð. Hér á eftir fara samræður sem fóru okkar á milli á heimleið úr leikskólanum um daginn:

Júlía: "Mamma... pabbinn hennar Amanda (fóstra) á leikskólanum er dæinn".
Mamma: "Nú, æ hvað það var sorglegt"
Júlía: "Ja-á. En... I wonder af hverju hann var að dæja. Maybe hann var hit by a car!"
Mamma: "Neeeei, heldurðu það? Kannski var hann bara orðinn gamall og lasinn?"
Júlía: "Já, maybe hann var gamall og broken (ónýtur)... eða maybe hann var að borða eitthvað bad!
Mamma: "Heldurðu það?"
Júlía: "Já! Maybe hann var að borða BUGS! Og maybe hann var allergic to bugs! Og þessvegna hann var að dæja. Ein stelpa á leikskólanum mínum er allergic to blueberries."

- Þannig enduðu vangaveltur hennar um dánarorsök þessa manns.

Og svo er fólk hissa á því að við ætlum ekki að eiga fleiri krakka!

föstudagur, október 10, 2003

Halló- hvað?

Eitt af því góða við að búa í útlöndum eru tvöfaldir hátíðisdagar. Þ.e.a.s. annars vegar kanadískir og hins vegar íslenskir. Við erum nefnilega svo heppin að geta valið úr þá daga sem okkur finnst skemmtilegir úr báðum menningarheimum og haldið þá hátíðlega. Sem dæmi um þetta er til dæmis Halloween (ísl. hrekkjavaka eða halló-vín) sem allir þekkja. Okkur finnst þessi dagur frábær og leggjum ýmislegt á okkur til að gera hann sem skemmtilegastan. Til dæmis fyrir nokkrum árum fengum við kunningja okkar til að dressa sig upp og sitja á stól við útidyrnar (leit út fyrir að vera svona týpísk Halloween uppstilling) og svo þegar krakkarnir komu til að banka þá stóð hann upp og hreyfði hann sig. Það var mikið öskrað í hverfinu það kvöld!

Annar skemmtilegur dagur er St. Patrics Day. Hann er reyndar upprunninn á Írlandi og kenndur við dýrlinginn Patrek. Nema hvað, á St. Patrics Day verða allir að vera í einhverju grænu og svo er farið í bæinn og djammað og sopið á grænum drykkjum (þar á meðal grænum bjór!) Og engum er hleypt inn á barina nema vera með eitthvað grænt á sér. (Voða vinsælt hjá unga fólkinu að vera í grænum nærfötum svo það geti sýnt 'thongið' eða hlýrann)

Eníveis. Upphaf þessarar umræðu um hátíðisdaga var semsé einn slíkur sem ber upp á næsta mánudag... nefnilega Thanks Giving. Við erum nú ekkert alveg með það á hreinu hvers vegna fólk heldur þennan dag hátíðlegan, en hitt erum við alveg með á hreinu; þá er borðaður KALKÚNN! Svo við Íslendingarnir erum ávallt miklir Kanadíngar um þessa helgi og borðum kalkún samviskusamlega eins og til er ætlast af alvöru Kanadíngum.

Svo þangað til næst... HAPPY THANKS GIVING!

sunnudagur, október 05, 2003

Úff! Þessi síðasta vika er búin að vera ansi merkileg. Hún byrjaði semsagt á því að á aðfaranótt mánudagsins ákvað flellibylurinn Juan að leggja leið sína yfir Nova Scotia. Þessa sömu nótt var ekki mikið sofið. Morguninn eftir var byrjað að lægja og ég fór framúr, rölti fram í eldhús og leit út um gluggann. Við mér blasti risastórt tré sem hafði fallið í bakgarðinum og ákveðið að lenda EKKI á svefnherberginu okkar, heldur lagðist snyrtilega út af langsum í garðinum. Nú veit ég hvað það er að renna kalt vatn milli skinns og hörunds!

Þegar hinn helmingurinn var kominn á fætur og við fórum að skoða í kringum okkur (fórum meðal annars í bíltúr um hverfið) komu í ljós fallin tré um allar jarðir, slitnar rafmagns- og símalínur og rusl og drasl útum allt. Sum trén höfðu lent á húsunum, þök höfðu skemmst og fokið, rúður brotnað, bílar skemmst af drasli sem fauk á þá, bátar sukku í höfninni og einn fauk upp á hafnarbakkann! Að ekki sé talað um vatnið sem flæddi um göturnar og inn í hús hjá fólki.

Rafmagnið fór auðvitað, og síminn líka. Síminn kom aftur daginn eftir en við fengum ekki rafmagn fyrr en á fimmtudagskvöld og sumir eru ennþá rafmagnslausir.

Fyrir okkur þýðir það ekki bara ljósleysi, heldur líka ekkert heitt vatn. En við erum orðin rosalega klár í að grilla allt mögulegt! :)

Auðvitað fór allt athafnalíf úr skorðum, engar búðir voru opnar og enginn mætti í vinnu. Skólarnir opna ekki aftur fyrr en á morgun og sumir seinna. En þetta er allt að skríða saman þó að ennþá eigi eftir að hreinsa mikið til.

Þetta var víst versta veður sem gengið hefur yfir í 40 ár. Sem betur fer var þó ekki kalt, 20 stiga hiti.

Adios.