sunnudagur, október 26, 2003

Og ég sem hélt að símasölufólk væri slæmt

Með mér vinnur maður að nafni Paul. Paul er allsérstakur maður í marga staði, mikið til vegna þess að hann hefur í áratugi unnið með konum eingöngu, auk þess að eiga eina slíka, þrjár dætur og fimm dótturdætur. Ég meina, karlmenn eru og verða karlmenn en þegar í þessar aðstæður er komið hlýtur eitthvað undan að láta erþakki?

Paul er semsagt með afbrigðum skrafhreifinn og getur auðveldlega blaðrað stanslaust frá morgni til kvölds. Þetta væri svosem þolanlegt ef aðal umræðuefni hans væri ekki veðrið. KOMMONN! Hver nennir að blaðra endalaust um eins óstabílan og boring hlut og veðrið?! Paul does.

Nema hvað, einn hlutur af starfi okkar er að selja fólki sem rambar inn á stofuna alls kyns vörur; sjampó, froðu og allt það. Ferlið er nokkurn vegin svona; kúnni labbar inn og fer að skoða eitthvað. Maður bíður smá stund og víkur sér svo að kúnnanum og spyr hvort maður geti aðstoðað hann eitthvað. Ef hann segir nei, víkur maður sér undan, en passar að vera í færi.

Paul gerir þetta svona. Hann stendur í felum á bak við borð og bíður átekta. Þegar kúnni nálgast sjoppuna byrjar hann að tvístíga og setur sig í stellingar, ekki ósvipað og þegar köttur sér feitan fugl á grein. Um leið og kúnninn setur fótinn inn fyrir dyrnar, stekkur Paul fram og hremmir kúnnan. Næstu mínútur fylgist maður með örvæntingarfullri baráttu kúnnans við að losa sig úr greipum Pauls, sem lætur móðan mása um allar þessar einstöku vörur og hvað þær geri nú og hvað þær séu á ótrúlega góðu verði og hvort þú hafir nú prófað þetta eða hitt og hvað veðrið sé nú frábært í dag. Sumir eru sterkir og ná að losa sig og hlaupa eins og fætur toga án þess að líta nokkurn tímann til baka, en aðrir sjá enga aðra leið úr prísundinni en að kaupa eitthvað.

Þið hefðuð átt að sjá konugreyið sem var á tveimur hækjum að reyna að flýja karlinn. Hann þvældist alltaf fyrir hækjunum svo hún komst hvergi, og mátti greina óttaslegið augnaráð hennar þar sem hún reyndi í örvæntingu að finna útgönguleið.

Engin ummæli: