sunnudagur, júlí 09, 2006

Klikkhausar

Við stelpurnar (3/4 af okkur þ.e.) ákváðum að skella okkur í Þakgil um helgina. Er búin að heyra svo margt af þessum stað sem ég vildi sannreyna. Við vorum ekki sviknar, það er ofsalega fallegt þarna og leiðin af Þjóðvegi 1 þangað inneftir (um 14 km) er ævintýralega falleg. Fyrir þá sem ekki vita þá liggur þessi afleggjari rétt austan við Vík og er beygt til vinstri út af veginum. Ef beygt er til hægri og ekið í 14 km. þá endið þið úti í sjó. (Þetta er mjög mikilvæg vitneskja fyrir mig þar sem ég á erfitt með að þekkja í sundur hægri og vinstri :)

Við komum okkur vel fyrir með litla kúlutjaldið okkar, sem er nú bara svona svefntjald og rétt rúmar okkur þrjár. Svo var ég með lítið sóltjald sem ég setti upp við hliðina á tjaldinu og þar vorum við með borðið okkar, prímusinn og svoleiðis dótarí. Voða kósí og fínt hjá okkur. Við sváfum þarna um nóttina og á laugardeginum fórum við í bíltúr. Fórum í sund á Vík og þræddum svo alla vegaspotta sem við fundum þarna í nágrenninu.

Eftir frábæran dag komum við aftur inn í Þakgil, en þegar við komum að tjaldinu var búið að taka niður sóltjaldið og leggja það pent við hliðina á tjaldinu okkar. Og ofaní okkur var búið að tjalda einhverjum 4-5 hústjöldum og tjaldvögnum eða fellihýsum eða hvað þetta heitir alltsaman. Enginn var sjáanlegur í þessu nýuppsprottna tjaldþorpi svo við stelpurnar fórum bara að grilla kvöldmat og slappa af eftir daginn.

Eftir dálítinn tíma birtist fólk í tjaldbúðunum og kemur ein konan röltandi yfir til mín.

Kona: "Heyrðu, ég tók niður sóltjaldið hjá þér áðan"
Ég: "Já, ég tók eftir því"
Kona: "Já sko, það var ekki nóg pláss fyrir okkur og þú varst ekki hérna..."
Ég: "Það er fullt af lausum tjaldstæðum hérna í kring"
Kona: "Já, en við vildum vera hérna hjá okkar fólki"
Ég: "Já, það hefði nú verið allt í lagi að spyrja fyrst"
Kona: "Já, en það var enginn hérna!"

Þá benti ég henni á þá staðreynd að ég væri að borga jafn mikið fyrir tjaldstæðið undir litla kúlutjaldið mitt og hún fyrir hústjaldið sitt. Ég væri hérna í sumarfríi rétt eins og hún og hún hefði alveg getað beðið eftir mér. Hún tautaði einhverja afsökun og ég sagði að mér finndist þetta bara yfirgengileg frekja. Með það labbaði hún tautandi í burtu. Hún hafði greinilega átt von á því að ég segði: "Jájá, ekkert mál! Viltu ekki að ég færi tjaldið mitt líka hérna út í lækinn svo það sé nóg pláss fyrir ykkur?"

Ég tek það fram að ég var pollróleg þegar þessi samskipti okkar áttu sér stað. En við þetta máttum við una, það var búið að taka af okkur þessa litlu aðstöðu sem við höfðum komið okkur upp og við máttum matbúa og nærast í skjóli við bílinn.

Segið mér, hvað er í gangi í hausnum á svona fólki?!

4 ummæli:

Nói sagði...

Hehe Eva þú ert töff ;)

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn.
Við sjáumst vonandi eitthvað þegar ég kem úr sumarfríi.

Begga

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn!!!!

Asdis sagði...

Þetta sýnir það bara og sannar eina ferðina enn að fólk er fíbbl. Það getur ómögulega hugsað lengra út á við heldur en rassinn á sér og hvað þá að actually ímynda sér að það sé annað fólk til í heiminum með sömu réttindi og það sjálft. Gott hjá þér að minna hana á það að hún sé ekki ein í heiminum.