sunnudagur, febrúar 05, 2006

Má ég eig'ann?

Fékk símtal frá Ernu í gærkveldi þar sem hún var úti með vinkonu sinni:

"Mamma, hverjar eru reglurnar með ketti í húsinu hjá okkur?"

Ó, nei! Hugsaði ég og útskýrði að það væri bannað að hafa ketti í fjölbýlishúsum nema fá samþykki allra íbúa og bla bla.

Erna: "Sko, við fundum nefnilega kettling... hann er heimilislaus, grútskítugur og blautur og er búinn að elta okkur heillengi".

Ég spurði hvernig hún vissi að hann væri heimilislaus.

"Bara... sko hann er ekki með neina ól og hann er kaldur og blautur."

Eftir smá samtal sagði ég henni að koma með kisa heim, ég skyldi kíkja á hann. Ekki það að við hefðum getað haldið honum en ef lýsingin var rétt þá mátti hlýja greyinu og fara svo með hann í Kattholt.

Jæja. Smá stund líður. Svo koma Erna og vinkonan heim. Erna heldur á gömlum, feitum fressketti sem greinilega hafði 'hreinkast' eitthvað á leiðinni en var þó dálítið blautur... enda rigning úti. Af atferlinu að dæma átti hann örugglega fínt heimili, var kelinn og vanur að láta hnoðast með sig.

Svo greyið fékk túnfisk og handklæðaþurrkun, fyrst hann var nú kominn innfyrir, og var svo hleypt út, þar sem hann trítlaði saddur heim á leið.

Engin ummæli: