Jæja, það er víst löngu kominn tími á að skrifa eitthvað erþaki? Nú er Íslandsferðin að baki og tókst barasta ansi vel til. (Hefði kannski mátt vera aaaaðeins lengri að mati *sumra* en ekki >annarra< ...
Best var að komast í sveitina og anda að sér íslensku álvers- og áburðarverksmiðjulofti... aaaaaah! Við borðuðum svo mikinn grillmat í ferðinni að hin rykföllnu þjóðvegalömb voru farin að taka á rás þegar við nálguðumst (hver verður næstur?!!) Lékum svo túrista með tilheyrandi ferðum að Seljalandsfossi, Skógum og auðvitað í Bláa Lónið. Semsagt hin fínasta ferð barasta.
En alltaf er nú gott að koma heim! Og þessi heimkoma var aldeilis ágæt því mín biðu skilaboð um skort á vinnuafli í einni af betri stofum bæjarins. Ég fór samdægurs með umsókn, fékk viðtal, var ráðin og klippi nú hausa af miklum móð. Reyndar var ég svo 'óheppin' að báðum skærunum mínum var stolið annan daginn minn í vinnunni, í öskjunni meira að segja. Þetta vakti að vonum með mér litla kátínu og voru allir látnir snúa öllu við hjá sér að leita. Það var engum blöðum um það að fletta, einhver hafði tekið græjurnar. En viti menn! Í dag fékk ég hringingu frá yfirmanni vorum um að skærin hefðu allt í einu birst sísona á stöðinni minni. Það er gott að vita að fólk hefur einhvern snefil af samvisku eftir. Nú verða skærin sett í keðju með hengilás og borin um hálsinn... eða kannski maður geti látið gera svona við hendurnar eins og Wolverine?
Anyways... ég ætla að reyna að vera aðeins duglegri við að skrifa (núna þegar ég er farin að vinna og hef engan tíma aflögu...!)
Ciao.