laugardagur, apríl 24, 2004

Af skipum, Böldrum og ósköpum öllum!

Ásamt fjölskyldu- og vina-hitteríi, páskaeggjaáti og almennu chilli, náði ég að lesa þrjár bækur á meðan á dvölinni á Íslandi stóð. Sú fyrsta var bók Óttars Sveinssonar um Goðafoss og það þegar honum var sökkt af þýskum kafbáti í seinna stríði. Bókin er alveg hreint ótrúlega tilfinningasnauð og þurrkuntuleg, miðað við dramatíkina sem hlýtur að hafa fylgt þessum atburði. Skrifað er útfrá sjónarmiði nokkurra sem á skipinu voru og aðstandendum þeirra, ásamt þeim sem komu að björguninni eftir að skipinu var sökkt. Er fólkinu fylgt frá aðdraganda þess að það steig á fjöl skipsins, í gegnum hörmungarnar sem dundu yfir þegar það var sprengt og allt til eftirmála þeirra sem af lifðu. Allt er þetta skrifað í bók sem er álíka áhrifamikil og símaskrá Og Vodafone. Það eina sem hún skilur eftir er pælingar um það hvernig upplifunin hafi verið í raun og veru fyrir allt þetta fólk.

Næsta bók var verk Sjón um Skugga-Baldur. Þessi bók er bara meistaraverk (vá, ég er farin að hljóma eins og bókaauglýsing á jólavertíð!). Ótrúlega flott lesning, sagan frábær og vel með farið hjá Sjón. Fimm stjörnur!

Þriðja bókin var svo eftir Flosa Ólafsson og nefnist Ósköpin öll. Létt og skemmtileg, svolítið í anda hellisbúans (nema góð) og höfðar til allra þeirra sem eru eða hafa einhvern tímann verið í sambúð (aftur farin að hljóma eins og jólaauglýsing). Nema hvað, mæli meðenni!

Engin ummæli: