Ég tók mér frí eftir hádegi einn dag nú í vikunni og ákvað að skreppa út í Öskjuhlíð. Finnst ósköp notalegt að liggja þar ein og sleikja sólina þegar vel viðrar.
Svo ég arka af stað með teppið mitt og finn mér góðan stað þarna í trjálundi. Þar sem ég ligg og dorma kemur allt í einu maður gangandi. Hann hikar eitthvað en heldur svo áfram og hverfur á milli trjánna. Ég lét mér fátt um finnast, þrátt fyrir að hafa heyrt margar perrasögur úr þessari sömu hlíð. Maðurinn leit ósköp sakleysislega út, snyrtilegur til fara í skyrtu og jakkafatabuxum.
Nema hvað, eftir nokkrar mínútur kemur hann aftur og leggst nú niður á teppi þarna rétt hjá mér. Mér fannst þetta jú, dálítið skrýtið en spáði ekki meira í það enda steikjandi sól, hlý gola og hrossagaukar hneggjandi um háloftin.
Eftir dálitla stund er ég að snúa mér við á teppinu og verður litið á manninn... sem liggur þá þarna á teppinu sínu allsnakinn...!
Ég leit undan og vonaði að ofbirtan hefði ekki valdið mér rafsuðublindu, enda maðurinn eins og risastórt endurskinsmerki. Svo smeygði ég mér í skóna, tók teppið mitt og fann mér annan stað fyrir sólbaðið, á aðeins opnara svæði.
Einhver spurði mig hvort ég hefði ekki verið neitt smeyk? En þar sem ég stóð full klædd og horfði niður á berrassaðann drenginn, get ég ekki sagt að mér hafi þótt stafa nein hætta af honum. Sjálfsagt var honum bara heitt :)
Einhver spurði mig hvort ég hefði ekki verið neitt smeyk? En þar sem ég stóð full klædd og horfði niður á berrassaðann drenginn, get ég ekki sagt að mér hafi þótt stafa nein hætta af honum. Sjálfsagt var honum bara heitt :)