sunnudagur, júlí 22, 2007

Áts

Fór á mótorhjólinu í Kjósina í dag í mínu mesta sakleysi. Steig af hjólinu á áfangastað og teigði úr mér og fann þá sting í handlegginn. Hugsaði með mér að líklega hefði þetta verið eitthvað á olnbogahlífinni í jakkanum og spáði ekki í það meir.

Settist inn með gömlu hjónunum og fékk kaffi og meððí og fannst ég eitthvað skrýtin í handleggnum. Hann orðinn rauður og aumur... það skyldi þó ekki vera?

Tók jakkann minn og hristi ermina og hvað haldiði að hafi dottið niður úr henni á gólfið?

Núna á Gulli Geitungur heima í rotþró uppi í Kjós. Honum var nær.

mánudagur, júlí 16, 2007

Hlýnun jarðar



mánudagur, júlí 09, 2007

Heima, sæta heima...

Næst þegar ég fæ geðveika hugdettu eins og t.d. að ganga á 24 fjöll á sólarhring, vill einhver vinsamlegast loka mig inni þangað til mér snýst hugur. -Takk.

Enívei, ég er komin niður... í heilu lagi eða því sem næst. Þessi ganga var klárlega mesta líkamlega og andlega þolraun sem ég hef gengið í gegnum. Hvannadalshnjúkur var lautarferð í samanburði!

Við lögðum af stað klukkan hálf níu á laugardagsmorgni í svartaþoku, en gengum uppúr henni á fyrsta klukkutímanum. Eftir það vorum við í sólskini í heilan sólarhring. Sólin rétt tyllti sér undir hafflötinn í augnablik áður en hún reis aftur og maður ber þess augljós merki í dag, vel steiktur þrátt fyrir sólarvörn!

Gangan sjálf var... tjah, hvað get ég sagt... hryllingur? Við gengum til skiptis í lausum stórgrýtis skriðum þar sem hvergi var fast undir fótum, meira að segja stóru björgin fóru af stað þegar maður steig á þau... og blautum snjó. Við fórum með fjallshryggjum þar sem hægt var, og þegar maður klöngraðist í skriðunum með þverhnípi á báðar hliðar, þá setti maður upp ímyndaða vagnhestaleppa og þóttist ekkert sjá. Leit hvorki upp né niður, en var þeim mun uppteknari af tánum á sér. Víða þurftum við líka að klöngrast í snarbröttum klettum með sama ótrausta undirlendið undir fótum. Ekki uppáhalds aðstæður þeirra sem þjást af lofthræðslu (*réttupphönd*). Snjórinn gerði það svo að verkum að allir voru orðnir blautir í fætur fljótlega eftir að við lögðum af stað þrátt fyrir legghlífar og minnkafeiti, og eftir það gengum við með polla í skónum í 20 tíma. Í lokin var þreytan orðin svo mikil að ef ég settist niður á stein til að hvíla mig þá dottaði ég, og þá voru enn 15 km eftir. En á einhverjum yfirnáttúrulegum viljastyrk sem ég vissi ekki að ég ætti til, komst ég alla leið.

Þegar við loksins komum niður 25 tímum eftir að við lögðum í hann, tók björgunarsveitin Súlur á móti okkur með heitu kakói og kringlum og svo var okkur skutlað að bílunum sem við höfðum skilið eftir við Skíðahótelið hinum megin í dalnum. Ég brunaði niður á tjaldstæði í sturtu, henti mér inn í tjald í 4 tíma og lagði svo af stað í bæinn.

Merkilegt nokk þá slapp ég með tvær blöðrur á tánum og mar á ökklanum eftir vinstri skóinn. Smá strengi og massívan sólbruna.

Tvennt stendur uppúr eftir þessa mögnuðu göngu; góður félagsskapur og stórkostlegt útsýni. Myndir má finna í link hér til hægri og ég mæli með að stilla á slideshow þar sem þær eru nokkuð margar.

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Labbi-labb... og meira labb

Jæja, senn líður að göngunni miklu. Ætla að dóla mér norður á morgun og vona að ég fái tjaldstæði, en það er víst íþróttamót á Akureyri akkúrat núna um helgina. Í versta falli sefur maður bara í bílnum.

Gangan hefst klukkan 8:00 á laugardagsmorgun og er reiknað með að henni ljúki um svipað leiti á sunnudagsmorgun. Gengnir verða 24 tindar (að meðaltali einn tindur á klukkutíma), leiðin er tæpir 50 km. og samanlögð hækkun um 4000 metrar (u.þ.b. tveir Hvannadalshnjúkar).

Ég veit eiginlega ekkert hvað ég er að fara útí, svo það verður bara að koma í ljós hvort ég næ að klára þetta :)

Fólki er allavega í sjálfsvald sett hversu langt það fer og verður ferjað niður í byggð ef á þarf að halda.

Nú er bara að vona að hann hangi þurr og maður fái þokkalegt skyggni yfir þessar fallegu sveitir þarna í kring. Ekki spennandi tilhugsun að ganga í 24 tíma í þoku.

Frekari fréttir fylgja eftir helgi og vonandi ein eða tvær myndir líka :)

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Önnur sólbaðssaga

Ég fór í Nauthólsvíkina eftir vinnu í dag til að ná síðustu sólageislunum.

Ligg þar eins og skata á teppinu mínu þegar ég heyri ég í litlum strák koma labbandi með pabba sínum. Stákurinn kemur nær og er eitthvað að skoða mig og svo heyri ég eftirfarandi:

Pabbinn: "Þetta er allt í lagi, hún er bara í sólbaði"
Stráksi: "Hún er lifandi...?"
Pabbinn: "Jájá, hún er lifandi"

Svo rölta þeir feðgar sinn veg...