föstudagur, maí 02, 2003

Hingað ruddust inn menn, klæddir gulum geimbúningum og fóru um allt hús með pípandi leitartæki. Við köstuðum okkur í gólfið og hugsuðum; ó, nei... þeir fundu okkur!!
Þetta var dramatíska útgáfan. Viljiði leiðinlegu útgáfuna líka? Ok. Einhverjum snillingnum í götunni datt í hug að hella bensíni niður í niðurfall hjá sér. Afleiðingin var megn bensínstybba sem lagði um öll nágrannahúsin, að okkar meðtöldu. Slökkviliðið mætti á staðinn og gekk hús úr húsi, íklætt gulum hlífðarbúningum með hanska, hjálma og einn með gasgrímu (með tilheyrandi soghljóðum). Sá grímuklæddi gekk um með mæli til að reyna að finna upptökin og ganga úr skugga um að gufurnar sem við vorum að anda að okkur væru undir hættumörkum. Okkur var svo ráðlagt að leita skjóls hjá vinum og vandamönnum ef einhver væri heilsuveill í húsinu, en opna gluggana ella. Þar sem við erum auðvitað öll við hestaheilsu, brugðum við á síðara ráðið og fórum að sofa eftir þessa annars ágætu tilbreytingu við venjulegheit hversdagsleikans.

Engin ummæli: