miðvikudagur, janúar 21, 2004

Mooseheads vs. bláa liðið

Hérna í Kanödu er hokkí mjög vinsæl íþrótt, bæði til að spila, horfa á og tala um. Nema hvað, um daginn ákváðum við að þetta gengi nú ekki lengur, við búin að búa hér í á fimmta ár og aldrei farið á hokkíleik. Svo við ákváðum að bæta úr því og skelltum okkur ásamt einum vinnufélaga Geira og konunni hans, sem bæði eru gangandi alfræðiorðabækur um hokkí.

Ég held að við höfum bara staðið okkur vel sem viðvaningar. Sátum uppi í stúku með öfugar derhúfur, drukkum bjór og smjöttuðum á nachos. Vinnufélaginn og frúin voru með none-stop lýsingu á leiknum fyrir okkur, svo Bjarni Fel hefði dauð skammast sín. Og við reyndum af miklum mætti að vista allar þessar upplýsingar á harða diskinum... nöfn leikmanna, af hverju þessi var rekinn útaf, hvenær maður er rangstæður o.s.frv. Við lærðum nú svosem ekki mikið í þessum eina leik, en vorum orðin nokkuð góð í að fagna þegar rauða liðið skoraði og púa þegar bláa liðið braut á rauða liðinu. Að auki náðum við að leggja á minnið nafnið á rauða liðinu líka. Sko okkur!

Engin ummæli: