föstudagur, febrúar 20, 2004

Daginn eftir...

Veðrið er gengið yfir og við tekin glampandi sól sem glitrar á snjóinn. Glitrar á alla 98 sentímetrana sem við fengum síðasta sólarhringinn! Þá erum við að tala um jafnfallinn snjó, svo þið getið rétt ímyndað ykkur skaflana. Skaflinn í innkeyrslunni náði mér upp að herðum. Ég kleif snjóinn niður að götu til að taka myndir, og þar var hann klofhár svo maður komst varla áfram. Varð hálfpartinn að synda um skaflana.

Geiri og Brian (sem á snjóblásara) byrjuðu á því að hreinsa innkeyrsluna hjá Brian. Það tók 2-3 klukkutíma (einn á blásara og einn á skóflu). Svo var röðin komin að okkar innkeyrslu og þá bilaði blásarinn. Svo báðir byrjuðu að hakka með skóflum og voru búnir með um 1/4 af innkeyrslunni eftir ca. klukkutíma. Þá var kominn tími á kaffi og eftirmiðdagslúr :)

Nú ferðast fólk um á gönguskíðum og snjóþrúgum og svo eru auðvitað jólin hjá þeim sem eiga snjósleða, því ekki er hægt að labba, hvað þá hreyfa bíl.

Nema hvað, þar sem þeir standa félagarnir og hamast við að moka innkeyrsluna, kemur ekki kona skríðandi niður götuna á fjórum fótum með veskið sitt í hendinni. "Ekki hlægja" kallar hún. "Ég bý hérna í næstu götu og hélt að það væri mikill snjór þar, en þetta er fáránlegt!"... og skreið svo áfram í áttina heim til sín.

Engin ummæli: