sunnudagur, janúar 28, 2007

Haustmyndir

Setti nokkrar nýlegar myndir í albúmið hérna til hægri.

mánudagur, janúar 22, 2007



32:24

Eru til fallegri tölur í heiminum? Ekki á þessum mánudegi.

Óumdeilanlega flottasti handbolti sem ég hef séð á ævi minni.

Vá.

sunnudagur, janúar 21, 2007


Þorrinn byrjaður

Alveg er mér fyrirmunað að skilja hvernig fólk getur lagt sér þetta til munns, hvað þá fundist það girnilegt eða gómsætt.

Held ég haldi mig bara við harðfiskinn, flatkökurnar og annað sem ég þarf ekki að "horfast í augu við".

laugardagur, janúar 13, 2007


Ekki örvænta

Flestir hafa örugglega orðið varir við veikindafárið síðustu vikur, ef þeir hafa þá ekki sjálfir lagst í bælið.

Annar hver maður hefur legið með hor og hausverk og margir gubbandi í ofanálag. Tveir sem ég þekki lágu í rúminu í þrjár vikur!

Í ljósi þessa fannst mér skondið að lesa eftirfarandi frétt á visir.is í gær:

"Flensan hefur enn ekki stungið sér niður, en læknar segja varla langt að bíða hennar, enda komi hún yfirleitt á þessum árstíma".

Þannig að fyrir ykkur sem voruð skilin útundan (eins og ég), er ennþá von til að ná sér í nokkur míkróskópísk gæludýr.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Ó, nei... ekki KONUR!

Sá frétt í dag á mbl.is þar sem Vatíkanið gagnrýnir Dakar rallíið og meint ábyrgðarleysi aðstandenda þess. Í fréttinni kemur meðal annars fram að "...alls hafa 54 látist í tengslum við keppnina frá upphafi, þar á meðal eru átta börn og tvær konur."

Ókey, ég skil alveg að það sé tekið sérstaklega fram að börn hafi verið þarna á meðal. En af hverju konur? Af hverju er hvergi minnst á að x margir karlar hafi látist?

Þetta er auðvitað bara eitt af milljón svona dæmum þar sem setningin "konur og börn" hefur glumið í eyrum.

Ég get ekki lesið annað út úr svona frétt en að það sé mun hræðilegra að kona láti lífið en karl. Er það meint varnarleysi okkar sem gerir okkur að svona miklum fórnarlömbum?

Maður spyr sig...