mánudagur, júní 27, 2005

Scumbag

Ég afrekaði að stífla eldhúsvaskinn í gær. Förum ekkert nánar út í hvernig ég fór að því nema hvað grjónagrautur spilaði þar eitt af aðalhlutverkunum (með rúsínum). Það er svona að vera vanur að búa í útlöndum og vera með ruslakvörn (ég ætla allavega að nota það sem afsökun, frekar en eigin dómgreindarleysi). En... þar sem ég er útskrifuð með meirapróf á drullusokk (líka eftir að hafa búið í útlöndum, þar sem allar pípur, klósett og niðurföll virðast vera þrengri og þar af leiðandi stíflugjarnari en við eigum að venjast) þá dreif ég mig í dag eftir vinnu og fjárfesti í einum slíkum.

Drullusokkur er eitt af mínum uppáhalds verkfærum. Svona einfaldur og náttúruvænn en svínvirkar, og heitir svo svona skemmtilegu nafni. Allavega... ég kem heim með gripinn, bretti upp ermarnar (var reyndar í stuttermabol en hitt hljómar betur) og byrja að hamast á vaskinum með tilheyrandi sulli, soghljóðum og góðri lykt. Og eftir langa og stranga viðureign með sokkinn að vopni tókst mér loksins að losa stífluna (ég held mig muni ekki langa í grjónagraut á næstunni).

Jæja, í sigurvímunni ákvað ég að láta ekki staðar numið þar heldur athuga hvort mér tækist ekki að fá betra rennsli niður úr baðherbergis vaskinum líka, sem hefur verið eitthvað tregur alveg síðan við fluttum inn. Ég storma inn á bað með drullusokkinn á lofti, nú skyldi aldeilis tekið til hendinni. Eftir mikið og kröftugt hjakk, sull og svínarí var þó enginn munur á niðurrennslinu.

Og núna þegar ég skrúfa frá vaskinum, kemur vatnið beint upp um niðurfallið á gólfinu.


sunnudagur, júní 26, 2005

Letihelgi dauðans

Sváfum allar út bæði í gær og í morgun. Ég var reyndar búin að gefa sjálfri mér leyfi fyrirfram að vera löt þessa helgi, en það hefur nú samt ekki tekist alveg án samviskubits.

Skrapp í gær á Rauðalækinn að klippa litla frænda, sem er að fara á Hróarskeldu í dag. Tveir af vinunum ætluðu að raka sig sköllótta með því skilyrði að frændi fengi sér hanakamb (mohawk). Ég fékk sumsé þann heiður að fá að klippa kambinn og skemmti mér konunglega. Systa var sem betur fer ekki heima, enda líklega betra fyrir mig að vera fjarri góðu gamni þegar hún sér soninn svona útleikinn.

Hann er núna í stíl við persalæðuna á heimilinu sem einnig var nýklippt. Alla jafna er hún ekkert nema hárið. Nú var búið að raka allan líkamann og lappirnar, fyrir utan loppurnar, hausinn og skottið! Ég held ég verði að reyna að ná í mynd af henni til að setja hingað inn (Sandra?).

Tvær vikur í Kanödu. Það verður skrýtið að koma heim eftir níu mánaða fjarveru. Mjög skrýtið.

Jæja. Nú er það Bónus. Ræktin. Júlla í afmæli. No more lazybum-ing.



... Posted by Hello

föstudagur, júní 24, 2005

Hlaupi-hlaup

Tók í fyrsta skipti í gær þátt í hlaupi. Hef reyndar farið í svona 'skemmtiskokk' áður með skjólstæðinga af Kópavogshæli, en þetta var svona alvöru. Þetta var semsagt Miðnætur-Jónsmessuhlaup sem ég frétti af í gær og eins og flestar mínar ákvarðanir, varð þessi til í skyndi (á um það bil .4 sekúntum)... og ég skráði mig í 10km hlaup. Eftir skráninguna byrjaði nagið; hvað er ég nú búin að koma mér í? Hef ekki hlaupið þessa vegalengd í næstum því ár, þó ég hafi auðvitað verið að hlaupa styttri vegalengdir síðan. En þetta gekk bara vel og markinu var náð á 53 mínútum.

Powerade var styrktaraðili hlaupsins og voru drykkjarstöðvar í hringnum þar sem fólk útdeildi glösum til hlauparanna. Þá greip maður glasið á hlaupunum, sötraði innihaldið í sig án þess að stoppa og hélt svo áfram. Nema hvað. Ég var auðvitað í mínum hvíta galla í hlaupinu. Powerade drykkurinn var himinblár. Hafið þið einhvern tímann reynt að drekka úr fullu pappaglasi á hlaupum? Need I say more?

Nú á ég medalíu og bládoppóttan hlaupagalla.

mánudagur, júní 20, 2005

Whip cashbook?

Þegar maður hefur akkúrat ekkert að gera getur verið gaman að leika sér í svona translation vélum á netinu. Það er samt gott að sú sem ég fann í dag er ókeypis. Ég prófaði að slá inn þetta:

Gamli Nói, gamli Nói
keyrir kassabíl
hann kann ekki að stýra
brýtur alla gíra
Gamli Nói, gamli Nói
keyrir kassabíl

...og svona snaraði vélin þessu yfir á ensku:

Gamli Nói gamli Nói
whip cashbook
he jug not snuggle up to steer
brýtur allir giraffe
Gamli Nói gamli Nói
whip cashbook

Athyglisvert.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Jæja...

Af beygla.is:

"Fatahönnuðir í Japan og Austurríki vinna nú saman að því að gera fatalínu fyrir hænur.

Austurríkismaðurinn Edgar Honetschlaeger sagði að hann hefði ákveðið að fara í samstarf með Japönunum til þess að gera fötin glæsilegri.

Núna er hænu-tískusýningar um allan heim þar sem Edgar og félagar kynna nýja klæðnaðinn.

Nú þegar hefur þónokkur fjöldi keypt föt fyrir hænurnar sínar."



Fashion Chick! Posted by Hello

miðvikudagur, júní 01, 2005

Til hamingju

Sögulegur viðburður átti sér stað nú í morgun þegar dýr af annari tegund en Homo Sapiens var ráðið til starfa bæjarstjóra í bæjarfélagi hér á landi. Um er að ræða stóran og stæðilegan blöðrusel; Cystophora cristata, og er dýrið karlkyns.

Reyndar hafa áður verið ráðin til ýmissa embættisstarfa aðrar tegundir en Homo Sapiens. Má þar helst nefna apa ýmiskonar, t.d. simpansa; Pan Troglodytes. Einnig gegna allmargir asnar; Equus asinus, ábyrgðarstöðum víða um land.

En ég óska hérmeð blöðruselnum velfarnaðar í starfi. Ekki veitir af fjölbreytninni í fánu landsins.



Cystophora Cristata Posted by Hello