miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Mynds

Myndir úr sumarfríinu í "Albúm" hérna til hægri. Fleiri væntanlegar þegar filman klárast.

P.s. ef einhver veit hvernig ég losna við þennan ljóta græna bakgrunn í albúminu, má sá hinn sami senda skiló!

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Ó-Menningarnótt

Kíkti í bæinn í gærkvöldi um áttaleitið. Þá strax var nokkur fjöldi fólks farinn að veltast um í rennisteininum af áfengisdrykkju.

Byrjaði í GuSt á Laugarvegi þar sem tríóið Moskító (sem er hluti hljómsveitarinnar Moskvitsj) var að spila. Ein af þeim var hún Sandra og tóku þær nokkur þjóðlög héðan og þaðan frá Evrópu, á Selló, blokkflautu og rafmagnsgítar. Bara snilld.

Eftir þetta rölti ég niður í portið hjá 'Við Tjörnina'. Þar áttu að spila Fræbblarnir og Megasukk. Ég kom mér fyrir á góðum stað og þar stóð ég og kvaldist við að hlusta á Fræbblana glamra og gelta í svona þrjú korter. Þegar því var lokið var tilkynnt að nú yrði gert þriggja kortera hlé áður en Megasukk kæmu fram.

Svo ég skakklappaðist hálf heyrnarlaus og orðin frekar tæp á geði, aftur út í bíl og skrölti heim.

Þegar þarna var komið sögu var klukkan orðin tíu og drukknu unglingarnir farnir að detta um barnavagnana hjá fjölskyldufólkinu.

Þetta var því frekar skrýtin samsetning og súrrealísk stemmning sem einkenndi þetta kvöld.

Efast um að ég nenni á næsta ári... nema kannski Megasukk spili á UNDAN.

laugardagur, ágúst 19, 2006

Hlaupi hlaup

Hálfmaraþonið var lagt á 2:03:33. Get ekki grenjað yfir því, þó ég hafi ætlað að ná þessu undir tveimur tímum. Hef aldrei hlaupið svona langt áður svo núna veit maður nokkurn veginn hvar maður stendur.

Vorum reyndar með sterkan mótvind á ca. 10km kafla, og svo var steikjandi sól. En þetta var rosalega skemmtilegt hlaup og pottþétt ekki það síðasta sem ég tek þátt í. Nú hefur maður líka tíma til að bæta sko :)

Svo koma stelpurnar eldsnemma í fyrramálið. Og þá verður nú kátt í höllinni :D

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Leiðist þér?

Bla mælir með sýningunni "Ekki borða gulan snjó!" sem nú stendur yfir í Hinu Húsinu.

Stórefnilegir drengir þar á ferð og sýningin skemmtileg eftir því.

Hlakka til að fylgjast með framhaldinu...

föstudagur, ágúst 11, 2006

Skoðið þessa neðstu vel :)

Nokkrar flottar auglýsingar.

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Betra seint en aldrei

Setti inn nokkrar random myndir af Hvannadalshnjúk í 'labbmyndir' hérna til hægri.

-Mig langar aftur :)

sunnudagur, ágúst 06, 2006


Komin heim úr vel heppnuðu ferðalagi. Byrjaði í Veiðivötnum og lágu 8 urriðar og tvær bleikjur í valnum.

Æfði mig með flugustöngina með ágætum árangri... ef frá eru talin skiptin þar sem línan vafðist um hálsinn á mér og flugan kræktist í bakkann fyrir aftan mig.

Eftir veiðitúrinn var flakkað um landið og tjaldað við Langasjó, á Skaftafelli, Skipalæk í Fellabæ, við Mývatn tvær nætur og svo síðustu nóttina í sjálfum Kántríbænum á Skagaströnd. -Og já, gengið á Sveinstind.

Fengum fínt veður allan túrinn, fyrir utan þoku og leiðindi síðustu tvo dagana. Frábær ferð, en mikið verður gott að sofa í rúmi eftir tíu nætur í tjaldi!

-Læt fylgja með mynd af "The Russian Hummer" sem ég rakst á inni í Laugum :)