Borgarstjórakapallinn hófst þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hvarf úr stóli borgarstjórar 1. febrúar 2003 til þess að taka þátt í landsmálapólitíkinni.
Við embættinu tók Þórólfur Árnason sem sat til 1. desember 2004. Hann hvarf úr embætti vegna deilna í tengslum við olíusamráðsmálið. Steinunn Valdís Óskarsdóttir tók við af Þórólfi og sat út síðasta kjörtímabil, eða til 13. júní 2006.
Þá tók Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson við eftir að sjálfstæðismenn mynduðu meirihluta með Framsóknarflokknum eftir borgarstjórnarkosningar. Vilhjálmur hvarf hins vegar úr borgarstjórastóli um miðjan október í fyrra í kjölfar deilna í meirihlutanum um málefni REI.
Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, gekk til meirihlutasamstarfs við F-lista, Samfylkinguna og Vinstri - græna og þá varð Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. Hann virðist aðeins munu sitja í um 100 daga því samkvæmt tíðindum dagsins tekur Ólafur F. Magnússon við af honum.
Við þetta má bæta að samkvæmt samkomulagi Ólafs F. og sjálfstæðismanna verður Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjóri á næsta ári og út kjörtímabilið, það er haldi nýr meirihluti. Þetta þýðir að borgarstjórar Reykvíkinga verða orðnir sjö á tveimur kjörtímabilum.
1 ummæli:
go Þórólfur! :)
Skrifa ummæli