föstudagur, júlí 15, 2005

Smá melding

Komumst hingað heilu og höldnu á þriðjudagskvöld. Vorum klukkutíma styttra í loftinu en áætlað var. Sluppum alveg við að strippa fyrir eftirlitsmenn þetta skiptið og tollararnir rótuðu bara ekkert í töskunum okkar, ótrúlegt en satt. Brjóstahaldarinn minn pípti ekki einu sinni í málmleitarhliðinu. Ætli við fáum þetta svo ekki allt saman tvöfalt í hausinn á heimleiðinni, maður er bara svona heppinn einu sinni held ég.

Vaknaði með andfælum klukkan sex á miðvikudagsmorgun við rosa sprengingu og blossa sem lýsti upp allt herbergið. Fyrir utan er rafmagnsstaur með tilheyrandi köplum sem liggja þvers og kruss um bæinn. Þar hópast saman krákur eldsnemma á morgnana og keppast við að garga hver í kapp við aðra. Ein þeirra hafði semsagt þennan morgun gerst heldur nærgöngul við einn rafmagnskapalinn, með tilheyrandi skammhlaupi... og steiktri kráku.

Veðrið er búið að vera svona 25+, léttskýjað og smá gjóla. Fór á ströndina í morgun og svo út að hlaupa og lít núna út eins og crossbreed af karfa og humri... kannski heldur rauðari.

Líka búin að sjoppa smá. Það er yndislegt (og stórhættulegt) að versla föt og þurfa ekki að láta veðsetja eigin sál fyrir upphæðinni.

Vonandi eruð þið öll stillt og góð þó ég hafi brugðið mér aðeins í burtu.

Pikka meira fljótlega.

Engin ummæli: