miðvikudagur, desember 31, 2003

Nú árið er liðið...*sniff*

Þá er kominn gamlársdagur og áramótin framundan. Ekki úr vegi að líta yfir gamla árið og klykkja svo út með áramótasöngnum sívinsæla... og allir saman nú;

Nú árið er liiiðið í aldanna skaut
og aldrei það kemur til baaakaaa,
þá er nú best að éta grauut
já, það ætti ekki að saaakaaa!

mánudagur, desember 29, 2003

Settið flogið

Jæja, þá eru gömlu lögð af stað heim á leið. Nú er bara að vona að þau skili sér rétta leið á réttum tíma. Geiri hefur síðustu daga verið óspar á reynslusögurnar um allt vesenið sem hann og aðrir hafa lent í á þessari sömu leið, svona til að peppa þau aðeins upp :)

Nú tekur við að plana gamlárskvöld. Það er nú hægara sagt en gert því gamlárskvöld í Nova Scotia sökkar. Má með sanni segja að það sé leiðinlegasta kvöld ársins. Við Íslendingarnir getum auðvitað ekki sætt okkur við slíkt, enda vön flugeldum og fylleríisrausi fram eftir nóttu, ásamt áramótaskaupum, ættjarðarsöngvum sem sungnir eru þvoglumæltum söng og bláókunnugu fólki sem komið er á trúnaðarstigið og vill endilega fá manns álit á sínum persónulegu vandamálum. Svo við munum væntanlega reyna að troða okkur inn á aðra Íslendinga á svæðinu, eða þá draga þá hingað yfir.

Hvað sem verður er markmiðið aðeins eitt; fjör og meira fjör!

þriðjudagur, desember 23, 2003

Já-já-já, jahahahahá... ég er tilbúúúiiiiin!

Ég er komin í jólafrí, ligga-ligga-lá! Fæ heila viku og þarf því ekki að vinna meira á meðan gömlu eru hérna. Þessa stundina er ég haldin Þorláksmessu-skyldi-ég-nú-hafa-gleymt-einhverju heilkenni. Fæ alltaf smá hjartahopp þegar fólk spyr mig hvort ég sé búin að öllu fyrir jólin...; "Jjaaá... *hopp*"
En ég ætla ekki að hafa áhyggjur af því, enda hafa jólin alltaf komið á réttum tíma hingað til, sama hversu tilbúinn maður hefur verið.

Svo ég segi bara gleðileg jól og hafið það ógizzlega næs! :)

sunnudagur, desember 21, 2003

Tapast hefur gamalt sett

Jæja, þá er gamla settið loksins komið. Ég fór út á flugvöll að sækja þau á fimmtudagskvöldið en ekkert sást af þeim þar. Þá höfðu þau misst af tengifluginu í Boston og þurftu að gista á hóteli um nóttina. Síðan þurftu þau að fljúga til Newark daginn eftir og þaðan til Halifax. Þið getið ímyndað ykkur stressið hjá tveimur hálf mállausum gamalmennum að lenda í svona veseni. Og stressið hjá okkur að vita af þeim týndum í útlöndum!

En nú eru þau semsagt komin og vöðvabólgan farin að sjatna. Nú held ég jólin megi bara fara að koma :)

föstudagur, desember 19, 2003

Jólin koma

Það er mikið fjör í vinnunni þessa dagana. Það var brotist inn í skartgripaverslunina sem er beint á móti okkur í mollinu. Gaurinn komst undan gegnum þakið með fullt af úrum og dóti og skildi eftir glerbrot um allt. Svo fjölgar fólkinu sem kemur hlaupandi út úr Walmart með öryggisverði á eftir sér. Það er alveg ljóst að jólin eru að koma!

fimmtudagur, desember 11, 2003

Alltaf fjör í Penhorn Mall

Þetta moll sem ég vinn í er ansi sérstakt. Þá á ég við fólkið sem þangað sækir. Síðan ég byrjaði að vinna í júlí hafa verið framin nokkur rán, meðal annars í skartgripabúð og fleira. Ein sprengjuhótun barst um daginn og svo horfði ég uppá tvo gaura hlaupa út úr Walmart (við hliðina á okkur) með öryggisverði á hælunum og dvd diska hrynjandi út úr úlpunum sínum. Í dag var svo fyrsta aksjónið í aðal sjoppunni, Bangz. Þangað kom kona á miðjum aldri og var augljóslega ekki í góðu skapi að ekki sé meira sagt. Hafði fengið hárið litað af einni sem vinnur með mér og var vægast sagt ekki sátt. Hún vildi nú aldeilis vera viss um að sú sem lagaði ósköpin væri með reynslu svo Tanya, einn af meisturunum okkar var fenginn til verksins. Nema hvað kellingin byrjar að úthúða þeirri sem hafði litað og Tanya var ekki alveg að fíla það og sagði henni hreint út að það væri sjálfsagt að hún lagaði á henni hárið en hún vildi ekki heyra neitt skítkast út í samstarfsmenn sína. Þetta var eins og að skvetta olíu á eld því kellingin hreinlega sprakk, kallaði Tanya fucking cunt og fleiri orð sem ég hef ekki áður heyrt konur á þessum aldri nota. Á endanum þurfti managerinn okkar bókstaflega að reka hana út af stofunni.

That's the Christmas spirit, segi ég nú bara.

föstudagur, desember 05, 2003

Andleysið afsakað (með hnerra)

Fjarvera eiginmanns sem stakk af til Íslands, veikindi yngstu dóttur með hóstandi andvökunóttum, og nú síðast minn eigin slappleiki með nef- og augnkvefi ásamt sífelldum hnerra, hafa valdið því að bloggið hefur legið í dvala. Ég er að vona að andinn lyftist í jólapartýi Bangz sem haldið verður með pompi og pragt (hvað í fjandanum sem það nú þýðir) annað kvöld. Kannski þið fáið bara heila ritgerð beint í æð á sunnudaginn, hver veit... svo fremi maður liggi ekki í þynnku... ahemm...

föstudagur, nóvember 14, 2003

Mjólk er góð

Rakst á þessa snilldar frétt á mbl.is í morgun:

"Íslenskar kýr hafa lengstu spenana á Norðurlöndum eftir því sem fram kemur á heimasíðu Landssambands kúabænda. Í samantekt NMSM, Norðurlandasamtaka um mjólkurgæði, kemur fram að íslenskar kýr hafa lengstu spenana, sex sentímetra langa að jafnaði.

Minnstu spenana hafa stöllur þeirra í Noregi, 4,4 sentímetra langa. Styttri spenar þykja henta betur fyrir nútímamjaltir. Samtök kúabænda telja ekki útlit fyrir miklar breytingar á spenalengdum í nágrannalöndunum á næstu árum en búast við að spenar íslenskra kúa styttist eitthvað."


sunnudagur, október 26, 2003

Og ég sem hélt að símasölufólk væri slæmt

Með mér vinnur maður að nafni Paul. Paul er allsérstakur maður í marga staði, mikið til vegna þess að hann hefur í áratugi unnið með konum eingöngu, auk þess að eiga eina slíka, þrjár dætur og fimm dótturdætur. Ég meina, karlmenn eru og verða karlmenn en þegar í þessar aðstæður er komið hlýtur eitthvað undan að láta erþakki?

Paul er semsagt með afbrigðum skrafhreifinn og getur auðveldlega blaðrað stanslaust frá morgni til kvölds. Þetta væri svosem þolanlegt ef aðal umræðuefni hans væri ekki veðrið. KOMMONN! Hver nennir að blaðra endalaust um eins óstabílan og boring hlut og veðrið?! Paul does.

Nema hvað, einn hlutur af starfi okkar er að selja fólki sem rambar inn á stofuna alls kyns vörur; sjampó, froðu og allt það. Ferlið er nokkurn vegin svona; kúnni labbar inn og fer að skoða eitthvað. Maður bíður smá stund og víkur sér svo að kúnnanum og spyr hvort maður geti aðstoðað hann eitthvað. Ef hann segir nei, víkur maður sér undan, en passar að vera í færi.

Paul gerir þetta svona. Hann stendur í felum á bak við borð og bíður átekta. Þegar kúnni nálgast sjoppuna byrjar hann að tvístíga og setur sig í stellingar, ekki ósvipað og þegar köttur sér feitan fugl á grein. Um leið og kúnninn setur fótinn inn fyrir dyrnar, stekkur Paul fram og hremmir kúnnan. Næstu mínútur fylgist maður með örvæntingarfullri baráttu kúnnans við að losa sig úr greipum Pauls, sem lætur móðan mása um allar þessar einstöku vörur og hvað þær geri nú og hvað þær séu á ótrúlega góðu verði og hvort þú hafir nú prófað þetta eða hitt og hvað veðrið sé nú frábært í dag. Sumir eru sterkir og ná að losa sig og hlaupa eins og fætur toga án þess að líta nokkurn tímann til baka, en aðrir sjá enga aðra leið úr prísundinni en að kaupa eitthvað.

Þið hefðuð átt að sjá konugreyið sem var á tveimur hækjum að reyna að flýja karlinn. Hann þvældist alltaf fyrir hækjunum svo hún komst hvergi, og mátti greina óttaslegið augnaráð hennar þar sem hún reyndi í örvæntingu að finna útgönguleið.

föstudagur, október 24, 2003

Þar sem hinn helmingurinn er staddur á Íslandi, sótti ég Júlíu í leikskólann í gær og fór með hana í vinnuna til að klára vaktina mína. Þetta gekk bara vel, Júlía skemmti sér og öðrum og fræddi samstarfsfólk mitt um ýmislegt, meðal annars þá staðreynd að ljón yrðu að grasi þegar þau deyja (Lion King var sko að koma út á DVD :)

Nema hvað, ég var að klippa þegar frökenin kemur fram með buxurnar á hælunum og segir; mamma, ég þarf hjálp... viltu girða mig? Mín hafði semsagt brugðið sér á klósettið og náð að toga niður um sig, en ekki upp aftur. Ykkur þykir þetta kannski ekki mikið mál, fjögurra ára rass er jú bara krúttlegur ekki satt?! Nema hvað, hér í landi er fólk afspyrnu miklar teprur og má því nánast líkja þessu við að ég hefði sjálf birst með buxurnar á hælunum!

...ég held ég ljúgi ekki þegar ég segi að ég hafi aldrei áður verið eins fljót að girða.

miðvikudagur, október 22, 2003

Óli píka!

Þegar andleysið ræður ríkjum er ekkert annað að gera en láta aðra bloggara um skemmtunina. Hér má lesa frábæra sögu frá honum Rökkva.

miðvikudagur, október 15, 2003

What the...?!

Á flakki mínu um veraldarvefinn hef ég nú rekist á ýmislegt misjafnt. En þetta er ég bara ekki að fatta! Ef einhver hefur skýringu á þessari undarlegu myndasyrpu þá vinsamlegast fræðið mig!

sunnudagur, október 12, 2003

Góðan dæinn!

Eitt af því sem flest íslensk börn í útlöndum eiga sameiginlegt er að vera tvítyngd (furðulegt orð!). Jæja, Júlía setur nýja merkingu í þetta orð. Hér á eftir fara samræður sem fóru okkar á milli á heimleið úr leikskólanum um daginn:

Júlía: "Mamma... pabbinn hennar Amanda (fóstra) á leikskólanum er dæinn".
Mamma: "Nú, æ hvað það var sorglegt"
Júlía: "Ja-á. En... I wonder af hverju hann var að dæja. Maybe hann var hit by a car!"
Mamma: "Neeeei, heldurðu það? Kannski var hann bara orðinn gamall og lasinn?"
Júlía: "Já, maybe hann var gamall og broken (ónýtur)... eða maybe hann var að borða eitthvað bad!
Mamma: "Heldurðu það?"
Júlía: "Já! Maybe hann var að borða BUGS! Og maybe hann var allergic to bugs! Og þessvegna hann var að dæja. Ein stelpa á leikskólanum mínum er allergic to blueberries."

- Þannig enduðu vangaveltur hennar um dánarorsök þessa manns.

Og svo er fólk hissa á því að við ætlum ekki að eiga fleiri krakka!

föstudagur, október 10, 2003

Halló- hvað?

Eitt af því góða við að búa í útlöndum eru tvöfaldir hátíðisdagar. Þ.e.a.s. annars vegar kanadískir og hins vegar íslenskir. Við erum nefnilega svo heppin að geta valið úr þá daga sem okkur finnst skemmtilegir úr báðum menningarheimum og haldið þá hátíðlega. Sem dæmi um þetta er til dæmis Halloween (ísl. hrekkjavaka eða halló-vín) sem allir þekkja. Okkur finnst þessi dagur frábær og leggjum ýmislegt á okkur til að gera hann sem skemmtilegastan. Til dæmis fyrir nokkrum árum fengum við kunningja okkar til að dressa sig upp og sitja á stól við útidyrnar (leit út fyrir að vera svona týpísk Halloween uppstilling) og svo þegar krakkarnir komu til að banka þá stóð hann upp og hreyfði hann sig. Það var mikið öskrað í hverfinu það kvöld!

Annar skemmtilegur dagur er St. Patrics Day. Hann er reyndar upprunninn á Írlandi og kenndur við dýrlinginn Patrek. Nema hvað, á St. Patrics Day verða allir að vera í einhverju grænu og svo er farið í bæinn og djammað og sopið á grænum drykkjum (þar á meðal grænum bjór!) Og engum er hleypt inn á barina nema vera með eitthvað grænt á sér. (Voða vinsælt hjá unga fólkinu að vera í grænum nærfötum svo það geti sýnt 'thongið' eða hlýrann)

Eníveis. Upphaf þessarar umræðu um hátíðisdaga var semsé einn slíkur sem ber upp á næsta mánudag... nefnilega Thanks Giving. Við erum nú ekkert alveg með það á hreinu hvers vegna fólk heldur þennan dag hátíðlegan, en hitt erum við alveg með á hreinu; þá er borðaður KALKÚNN! Svo við Íslendingarnir erum ávallt miklir Kanadíngar um þessa helgi og borðum kalkún samviskusamlega eins og til er ætlast af alvöru Kanadíngum.

Svo þangað til næst... HAPPY THANKS GIVING!

sunnudagur, október 05, 2003

Úff! Þessi síðasta vika er búin að vera ansi merkileg. Hún byrjaði semsagt á því að á aðfaranótt mánudagsins ákvað flellibylurinn Juan að leggja leið sína yfir Nova Scotia. Þessa sömu nótt var ekki mikið sofið. Morguninn eftir var byrjað að lægja og ég fór framúr, rölti fram í eldhús og leit út um gluggann. Við mér blasti risastórt tré sem hafði fallið í bakgarðinum og ákveðið að lenda EKKI á svefnherberginu okkar, heldur lagðist snyrtilega út af langsum í garðinum. Nú veit ég hvað það er að renna kalt vatn milli skinns og hörunds!

Þegar hinn helmingurinn var kominn á fætur og við fórum að skoða í kringum okkur (fórum meðal annars í bíltúr um hverfið) komu í ljós fallin tré um allar jarðir, slitnar rafmagns- og símalínur og rusl og drasl útum allt. Sum trén höfðu lent á húsunum, þök höfðu skemmst og fokið, rúður brotnað, bílar skemmst af drasli sem fauk á þá, bátar sukku í höfninni og einn fauk upp á hafnarbakkann! Að ekki sé talað um vatnið sem flæddi um göturnar og inn í hús hjá fólki.

Rafmagnið fór auðvitað, og síminn líka. Síminn kom aftur daginn eftir en við fengum ekki rafmagn fyrr en á fimmtudagskvöld og sumir eru ennþá rafmagnslausir.

Fyrir okkur þýðir það ekki bara ljósleysi, heldur líka ekkert heitt vatn. En við erum orðin rosalega klár í að grilla allt mögulegt! :)

Auðvitað fór allt athafnalíf úr skorðum, engar búðir voru opnar og enginn mætti í vinnu. Skólarnir opna ekki aftur fyrr en á morgun og sumir seinna. En þetta er allt að skríða saman þó að ennþá eigi eftir að hreinsa mikið til.

Þetta var víst versta veður sem gengið hefur yfir í 40 ár. Sem betur fer var þó ekki kalt, 20 stiga hiti.

Adios.

þriðjudagur, september 23, 2003

Má ég borða nestið þitt?

Ég er búin að komast að því að þegar kemur að skemmtilegum reynslusögum úr klippiheiminum, þá á Suzanne vinninginn. Einu sinni var hún að klippa konu og hér á eftir fara samræðurnar sem þeirra fóru á milli;

Kona (kemur auga á nestið hennar Suzanne): "What's that?"
Suzanne: "That? That's my lunch"
Kona: "What is it?"
Suzanne: "Eeehhh... an apple and a sandwich"
Kona: "Can I eat it?"

Suzanne var svo hissa að hún leyfði konunni að borða nestið sitt. Konan borðaði nestið, borgaði fyrir klippinguna með innistæðulausum tékka, þakkaði fyrir sig og fór...!

miðvikudagur, september 17, 2003

Pant aldrei lenda í svona!

Suzanne sem vinnur með mér er búin að vera að klippa í einhver tuttugu ár eða svo og hefur auðvitað lent í ýmsu. Einu sinni var hún að klippa blindan mann og var á fullu að spjalla við hann á meðan. Þegar hún var búin lyfti hún upp speglinum sínum eins og venjulega og sagði; Well, how does that look?
Maðurinn svaraði að bragði; Looks good from what I can see!



föstudagur, september 12, 2003

Jæja, ég fór með Júlíu í vinnuna til pabba hennar og í lyftunni var kona að tala við hana (bara við þrjár í lyftunni). Nema hvað þessi kona er með voðalega ljótar og skakkar tennur. Hún er eitthvað að kjá framan í Júlíu og Júlía starir bara á móti... bendir svo á konuna og spyr; "Do you have a loose tooth?"

Kids; gotta love them...

sunnudagur, ágúst 31, 2003

Nú eru skólarnir að byrja og krakkar á öllum aldri flykkjast í klippingu til að láta gera sig sæta. Fékk einn sex ára til mín sem var svo spenntur að byrja í skólanum að hann ákvað að klippa sig sjálfur! Svo kom ein átta ára stelpa í gær með axlasítt hár, og 5 cm brúsk sem stóð uppúr hvirflinum. Ég spurði hana hvort hún hefði verið að klippa sig sjálf og hún sagði vandræðalega; "já, þegar ég var lítil" (miðað við lengdina á brúsknum var það fyrir 2 - 3 mánuðum :)

fimmtudagur, ágúst 28, 2003

Úff! Var í dag að klippa mann af asískum uppruna (án þess að fara neitt nánar út í það). Það væri nú varla í frásögur færandi nema hvað ég skildi ekki orð af því sem maðurinn sagði! Kinkaði bara kolli þar sem mér sýndist það vera viðeigandi og brosti sætt. Ég spurði hann hvernig hann vildi að ég klippti hann og fékk útskýringu á einhverju sem hefði alveg eins getað verið kínverska (!), svo ég lét bara vaða enda lítið annað að gera í stöðunni. Á eftir spurði ég hvernig honum líkaði og hann sagði; þetta er rosalega stutt... en það er allt í lagi! (einu orðin sem ég skildi)
Tippaði mig 5 dollara og kvaddi. Phew! Nú bíð ég bara eftir að fá einhvern sem er virkilega smámunasamur og talar framandi tungum...!

sunnudagur, ágúst 17, 2003

Til fróðleiks

Vissuð þið að setningin "Vá! Má merk skatan nota tonnatakskrem á máv?" er alveg eins, lesin áfram og afturábak? Meira hér)

sunnudagur, ágúst 10, 2003

Ef það er eitthvað sem þessi vinna hefur kennt mér þá er það að maður skyldi aldrei 'stereó-tæpa' fólk. M.ö.o. ekki vera of fljót að gera sér hugmyndir um persónuna útfrá útlitinu. Maður veit þetta auðvitað í þeóríu en á það samt til að falla í þessa gryfju. Nema hvað, fyrsta dæmið var áðurnefndur trukkabílstjóri sem leit út eins og 'týpískur' trukkabílstjóri... of stórar gallabuxur, snjáð leðurbelti haganlega komið fyrir undir bumbunni, gullkross, eyrnalokkur, opið skyrtuhálsmál... en vildi svo fá klippingu eins og Humphrey Bogart og froðu í hárið. Í gær var ég svo að klippa svona dæmigerðan pönk/töffara. Snjáðar gallabuxur, hlírabolur og tattú upp og niður báða handleggi. Hann var nú bara með svona dæmigerða stutta strákaklippingu, en sá var pikkí! Sagði að síðasti klippari hefði alveg ruglað klippingunni hans. Klippt toppinn örugglega tveimur millimetrum of stutt (af lýsingunni að dæma) og hitt ójafnt (tvö hár voru styttri en öll hin)! Spurði svo hvort ég væri búin að vera lengi klippari... öööööh, nei eiginlega bara nýbyrjuð sko. "-já, það sagði síðasti klipparinn líka!" (no pressure) Ég sagði honum að hafa engar áhyggjur, ég myndi ekki klúðra einu einasta hári og hann fór sáttur út. En ferlega var þetta fyndið... svona gæi sem maður hefði búist við að segði; "bara svona stutt" eða whatever...

Well... you live and learn.

fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Var að klippa eina ólétta. Sú var komin 7 mánuði á leið og við fórum að spjalla. Hún lét semsagt klippa á leiðslurnar fyrir fjórum árum (átti þá tvö börn) og þremur árum seinna... búmm! (eða ætti ég að segja 'bomm') Jájá, og vinkona hennar sem á mann sem fór í ófrjósemisaðgerð varð ólétt eftir svipaðan tíma. Karlinn sendi hana meira að segja í DNA próf þar sem hann trúði ekki að hann ætti barnið...! -En jújú, hann átti það.

Pæling dagsins; náttúran lætur ekki að sér hæða.

föstudagur, ágúst 01, 2003

Sena: Madur labbar inn a hargreidslustofu. Thetta er trukkabilstjori a midjum aldri med stort, kringlott hofud og harid farid ad thynnast all verulega a kollinum. Hann kemur med mynd. Myndin er af manni. Sa er um fertugt, grannur i andliti og ekki laust vid ad hann minni dalitid a Humphrey Bogart. Harid thykkt og lidad. Ju, trukkabilstjorinn vill fa thessa klippingu. Ok, gott og vel. Harstilistinn skodar myndina og segir; allt i lagi, svona stutt i hlidunum og aftana og heldur lengra ofan a? -Jamm.
Ad harskurdi loknum setur trukkabilstjorinn upp gleraugun sin (sem aettu betur heima i biomynd fra 1950) og skodar sig vel og lengi i speglinum. Fiktar mikid i harinu med hondunum og snyr ser a alla kanta. Spyr hvort hann geti ekki fengid sma frodu i harid, sem hann og faer. Segir svo hugsi; "Thetta litur nu alveg ekki ut eins og myndin"...!

...

I gegnum hugann fljuga margar setningar sem nota maetti til ad svara thessari athugasemd (flestar theirra hefdu liklega gert stilistann atvinnulausan... 'nei, tha tharftu ad skipta um gen'... 'nei, eg er harstilisti, ekki galdrakona'...o.s.frv.)

Thvi hvernig segir madur manni ad hann se hreinlega of skollottur og med allt of storan og kringlotta haus til ad geta nokkurn timann likst Humphrey Bogart...?!

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Jæja, það er víst löngu kominn tími á að skrifa eitthvað erþaki? Nú er Íslandsferðin að baki og tókst barasta ansi vel til. (Hefði kannski mátt vera aaaaðeins lengri að mati *sumra* en ekki >annarra< ...
Best var að komast í sveitina og anda að sér íslensku álvers- og áburðarverksmiðjulofti... aaaaaah! Við borðuðum svo mikinn grillmat í ferðinni að hin rykföllnu þjóðvegalömb voru farin að taka á rás þegar við nálguðumst (hver verður næstur?!!) Lékum svo túrista með tilheyrandi ferðum að Seljalandsfossi, Skógum og auðvitað í Bláa Lónið. Semsagt hin fínasta ferð barasta.

En alltaf er nú gott að koma heim! Og þessi heimkoma var aldeilis ágæt því mín biðu skilaboð um skort á vinnuafli í einni af betri stofum bæjarins. Ég fór samdægurs með umsókn, fékk viðtal, var ráðin og klippi nú hausa af miklum móð. Reyndar var ég svo 'óheppin' að báðum skærunum mínum var stolið annan daginn minn í vinnunni, í öskjunni meira að segja. Þetta vakti að vonum með mér litla kátínu og voru allir látnir snúa öllu við hjá sér að leita. Það var engum blöðum um það að fletta, einhver hafði tekið græjurnar. En viti menn! Í dag fékk ég hringingu frá yfirmanni vorum um að skærin hefðu allt í einu birst sísona á stöðinni minni. Það er gott að vita að fólk hefur einhvern snefil af samvisku eftir. Nú verða skærin sett í keðju með hengilás og borin um hálsinn... eða kannski maður geti látið gera svona við hendurnar eins og Wolverine?

Anyways... ég ætla að reyna að vera aðeins duglegri við að skrifa (núna þegar ég er farin að vinna og hef engan tíma aflögu...!)

Ciao.

sunnudagur, maí 25, 2003

Fleiri mikilvægar upplýsingar:

Fiðrildi geta bragðað með fótunum (?!?)

Kvak andar bergmálar ekki og enginn veit hvers vegna (spooky!)

Að meðaltali kafna 100 manns á kúlupennum árlega (jájá, alltaf í boltanum)

Fílar eru einu dýrin sem geta ekki hoppað (hahaha, ímyndaðu þér fíl að hoppa)

Það er mögulegt að leiða kýr upp tröppur en ekki niður (ókey þá)

Það er líkamlega ómögulegt að sleikja olnbogan á sjálfum sér (ó...key)

Augun á okkur eru alltaf jafn stór frá fæðingu, en nefið og eyrun hætta aldrei að vaxa (pælið í því ef það væru augun sem aldrei hættu að vaxa :)

Allir ísbirnir eru örvhentir (meinarðu ekki... örfættir)

Forn-egypskir prestar plokkuðu ÖLL hár af líkamanum, líka augnbrúnirnar og augnhárin (plokka af sér augnhárin... ái!)

Augun í strútum eru stærri en heilinn í þeim (hehehe)

Krókódílar geta ekki rekið tunguna út (athyglisvert)

Sígarettukveikjarinn var fundinn upp á undan eldspýtunum (og eldspýtur voru fundnar upp hvers vegna?)

Ameríkanar borða að meðaltali 18 ekrur af pizzu hvern einasta dag (yikes!)

Næstum allir sem lesa þetta bréf munu reyna að sleikja á sér olnbogan. Þú reyndir að sleikja á þér olnbogan, er það ekki? ;)

laugardagur, maí 10, 2003

Rakst á þessar mikilvægu upplýsingar á netinu:

-Með því að stunda kynlíf brennir þú 360 kaloríum á klukkutíma (World Class hvað...? :)

-Flestir rauðhærðir fæðast í Skotlandi eða 11% af öllum fæðingum (ætti engum að koma á óvart)

-Ekki er ráðlegt að éta tunguna út ísbjörnum, vegna hættu á A vitamín eitrun (sjitt... og þetta segið þið mér NÚNA)

-Það eru að meðaltali 259 rúsínur í kassa af Raisin Bran (aha! ...en hvað eru margar bran flögur?)

-13 manns létu lífið á seinasta ári í USA völdum þess að "nammi sjálfsalar" féllu ofan á það (fyrr má nú vera græðgin)

-Þrjú verðmætustu vörumerki heimsins eru Marlboro, Coca Cola og Budwizer, í þessari röð (hey, við erum bara mannleg og höfum öll okkar veikleika)

-Meðal stærð brjóstahaldara í dag er 36C en var 34B fyrir 10 árum (getur einhver stafað SILICONE)

-NASA í USA eyddi 1 milljón dollara í hönnun á Space Pen svokölluðum sem hægt var að nota í þyngdarleysi, Rússar leystu þetta með því að notast við blýanta (HAHAHAHAHA!)

-Tunga gíraffa er u.þ.b. 22 tommu löng, svört með bleikum doppum (nú get ég hætt að vera andvaka yfir að velta þessu fyrir mér)

-Það er kona sem talar fyrir Bart Simpson (meikar sens þegar þú spáir í það...)

-Það eru 336 dældir í golfkúlu (ókey þá)

-Konur blikka augunum næstum tvisvar sinnum oftar en karlmenn (það er af því að við erum svo mikil krútt ;)

föstudagur, maí 02, 2003

Hingað ruddust inn menn, klæddir gulum geimbúningum og fóru um allt hús með pípandi leitartæki. Við köstuðum okkur í gólfið og hugsuðum; ó, nei... þeir fundu okkur!!
Þetta var dramatíska útgáfan. Viljiði leiðinlegu útgáfuna líka? Ok. Einhverjum snillingnum í götunni datt í hug að hella bensíni niður í niðurfall hjá sér. Afleiðingin var megn bensínstybba sem lagði um öll nágrannahúsin, að okkar meðtöldu. Slökkviliðið mætti á staðinn og gekk hús úr húsi, íklætt gulum hlífðarbúningum með hanska, hjálma og einn með gasgrímu (með tilheyrandi soghljóðum). Sá grímuklæddi gekk um með mæli til að reyna að finna upptökin og ganga úr skugga um að gufurnar sem við vorum að anda að okkur væru undir hættumörkum. Okkur var svo ráðlagt að leita skjóls hjá vinum og vandamönnum ef einhver væri heilsuveill í húsinu, en opna gluggana ella. Þar sem við erum auðvitað öll við hestaheilsu, brugðum við á síðara ráðið og fórum að sofa eftir þessa annars ágætu tilbreytingu við venjulegheit hversdagsleikans.

sunnudagur, apríl 20, 2003

Jæja, þá er búið að naga utanaf málsháttunum. Þeir voru svohljóðandi:

Erna Sif: Flýtur meðan að ekki sekkur
Selma: Flestallt hefur fyrst verið lítið
Júlía: Fleira er gleði en fébætur einar
Eva: Hverjum þykir sinn fugl fagur
Ég held að Geiri hafi étið sinn...!

Annars minnti málshátturinn minn mig á þegar ég var lítil stelpa og pabbi var eitthvað að segja hvað ég væri sæt... og bætti svo við; hverjum þykir sinn fugl fagur, þó hann sé bæði ljótur og magur...! :D



laugardagur, apríl 19, 2003

Þaaaað er komið sumaaaaar, sól í heiði skííííín... haldnénú! Svo eru páskeggar á morgun. Við fengum samtals átta páskaegg frá Íslandi, þrjú heil og fimm í maski. Stelpurnar fá þó hver sitt egg, svo verður hitt bara tekið í nefið :)
Geiri er í útlegð einu sinni enn, fór til Averöy í Noregi (It's not the end of the World, but you can see it from there). Þetta er sumsé eyja rétt fyrir utan Kristianssund og er víst lítið hægt að gera sér til dundurs þegar maður er ekki að vinna... engir pöbbar, engir skemmtistaðir, ekki hægt að fara í pool eða keilu og ekki svo mikið sem einn veitingastaður! (Hverjum datt eiginlega í hug að planta höfuðstöðvum Maritech á þennan stað?!) Svo það er líklega löng vika framundan hjá þeim félögum.
En við stelpurnar hyggjumst njóta páskanna í súkkulaðiáti og fleiru skemmtilegu.
Svo... Gleðilega Páskegga!

þriðjudagur, mars 11, 2003

SUMAAAAAR! ÉG VIL FÁ SUMAAAAAAAR! Eða allavega smá vor eða eitthvað... er það til of mikils ætlast...? Þessi snjór er orðinn svo gamall og ógeðslegur að það er ekki fyndið. Hann hefur ekki tekið upp síðan byrjaði að snjóa um jólin, bara hlaðist upp og svo sjatnað og frosið og hlaðist meira upp. BJAKK! First day of spring er núna 21. mars og þá er eins gott að það komi VOR annars er ég sko FARIN! 10...9...8...7...6...5...4...3...2...1 *anda inn* *anda út* Ókey, ég er orðin róleg núna... en ég er SAMT orðin hundleið á þessum snjó.
Hvað er svo að frétta? Svosem ekki margt, Erna Sif og Selma eru í March break núna (vetrarfrí) í viku og kvarta ekki yfir því. Það er frekar ég sem kvarta þegar þær vilja hanga inni og horfa á sjónvarpið eða eitthvað. Þá rek ég þær út í snjóinn :D
Geiri er svo að fara á ráðstefnu í London í lok mánaðarins og ætlar að taka nokkra extra daga til að leika við Hanna.
Ég er búin að vera að fylgjast með lífi Vínarfarans reglulega enda gaman að lesa það sem hann skrifar. Allir að kíkja á bloggið hans Nóa frænda!
Segi svo bara bæ í bili. Bæ.

föstudagur, janúar 31, 2003

Það eru fæddir kanínuungar. Reyndar eru þeir nú orðnir þriggja vikna gamlir sem sýnir að maður verður víst seint góður fréttamaður. Allavega, þessar kanínur sem áttu báðar að vera kvenkyns fóru fyrir jólin að haga sér frekar undarlega (miðað við að vera báðar stelpur). Við höfðum nú ekki hugsað okkur að fara að fylla allt af þessum annars skemmtilegu dýrum svo ég pantaði tíma fyrir karlinn í "klippingu". Á meðan hann var í aðgerðinni fæddust semsagt tveir (hefði getað verið verra, þetta eru jú kanínur) ungar. Báðir kolsvartir, þó foreldrarnir séu gulur/hvítur og grá/hvít. Karlinn fór eitthvað að röfla um DNA test og ætlaði að neita að borga meðlagið en kerla hlustaði ekkert á hann. Ungarnir hafa svo fengið nöfnin Ljótur og Ógisslega Ljótur af augljósum ástæðum (svona tímabundið).

sunnudagur, janúar 12, 2003

Váts, það er bara komið nýtt ár. Það var nú svosem kominn tími til... samkvæmt almanakinu allavega. Vitiði hvað ég var að fatta? Í gær var akkúrat hálft ár í "the big 3-0"! Þá skal sko verða fjör :) Annars er maður nú bara sallarólegur yfir þessu og engin tilvistarkreppa farin að gera vart við sig ennþá (eins og hjá sumum sem ég þekki, hehe).
En hvað er nú að frétta síðan síðast... útskriftin 1. des fór vel fram og nú er maður orðinn junior hairstylist. Þá kemur biðin eftir atvinnuleyfinu svo maður geti farið að slá og raka. Við Júlía skruppum til Íslands fyrir jólin og skemmtum okkur og öðrum vel held ég bara. Júlía lærði að meta skyr og vildi helst ekkert annað borða. Og horfði á litlu lirfuna ljótu fimmþúsundogsjö sinnum eða svo.
Svo komu jólin og snjórinn og meiri snjór og svo kom smá meiri snjór og svo kom fullt af snjó og nú er eiginlega bara allt á kafi í snjó! Og á meðan er tíu stiga hiti á Íslandi og trén farin að bruma. Hmph! Til hvers var maður eiginlega að flytja til útlanda?! ...en þá hugsar maður bara um sumarið og sólina því ekkert okkar vildi skipta á hlýjunni í Kanödu fyrir íslensk rigningarsumar. Nej tak.